Einstaklingur, sem búsettur er hér á landi og var skikkaður í sóttkví við komu til landsins, hefur heimild til að kæra þá ákvörðun til heilbrigðisráðuneytisins. Þetta kemur fram á vef umboðsmanns Alþingis í dag.
Í kvörtun sem umboðsmanni barst voru gerðar athugasemdir um heimildir stjórnvalda samkvæmt reglugerð um sóttkví og einangrun til að ákveða að einstaklingur búsettur hér á landi þyrfti að sæta sóttkví eftir heimkomu. Sá sem kvartaði vísaði m.a. til þess að þessi skylda um tímabundna sóttkví gerði honum í raun ómögulegt að sinna atvinnu sem hann hefði sinnt erlendis með því að fara tímabundið til viðkomandi lands.
Umboðsmaður óskaði eftir afstöðu heilbrigðisráðuneytisins um það hvort einstaklingur í þessari stöðu ætti þess kost að fá skorið úr um gildi umræddra takmarkana með stjórnsýslukæru til ráðuneytisins, og var því svarað játandi.
Heilbrigðisráðuneytið viðurkenndi að ekki hefði verið nægilega skýrt tekið fram að einstaklingar sem sæta sóttkví af þessu tagi geti kært það. „Ráðuneytið er meðvitað um að misbrestur hefur verið á því að leiðbeina um kæruleiðir en búið er að koma þeim málum í betra horf,“ segir í bréfi til umboðsmanns.
Umfjöllun umboðsmanns Alþingis má nálgast hér.