Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra kannaði orðróm sem henni barst um að gleðskapur hefði verið hjá starfsfólki Landakots sem mögulega hefði valdið kórónuveirusmitinu sem þar kom upp.
Að sögn Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns var enginn gleðskapur og því var málið ekkert skoðað frekar.
„Það var enginn gleðskapur starfsmanna, Við könnuðum þennan orðróm sem okkur barst í gær og það eru engar upplýsingar um að um einhvern gleðskap starfsmanna hafi verið að ræða þarna,“ sagði Víðir á upplýsingafundi í morgun.
Vinna er hafin við að safna upplýsingum varðandi nánari greiningu á því hvernig atburðarásin fór af stað vegna smitsins á Landakoti, að því er Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, greindi frá á fundinum.
Samtals er um að ræða 27 starfsmenn og 52 sjúklinga. Af þeim eru 32 á Landakoti og 20 starfsmenn Landspítala. Í sóttkví eru um 270 starfsmenn, stærstur hluti vegna þessa smits. „Þetta hefur gríðarleg áhrif á starfsemina, sérstaklega á Landakoti,“ sagði Páll.