Þingvika Norðurlandaráðs hófst í dag

Halda átti árlegt Norðurlandaráðsþing í Hörpu þetta árið.
Halda átti árlegt Norðurlandaráðsþing í Hörpu þetta árið. Ljósmynd/Alþingi

Vika 44, eins og Svíar myndu segja, er áfram hápunktur norrænna stjórnmála þrátt fyrir að 72. Norðurlandaráðsþingi hafi verið aflýst. Halda átti þingið í Hörpu í Reykjavík þessa vikuna en ákvörðun var tekin í sumar um að aflýsa því í fyrsta skipti frá upphafi vegna óvissuástandsins í kjölfar Covid-19. 

Þrátt fyrir að ekkert formlegt þing verði haldið funda norrænir þingmenn og ráðherrar þessa vikuna. Nefndir innan Norðurlandaráðs, landsdeildir og flokkahópar hittast á fjarfundum og ráða ráðum sínum. 

Ekki verða haldnir þingfundir á Alþingi meðan á þingviku Norðurlandaráðs stendur. 

Á þriðjudaginn funda fulltrúar í Norðurlandaráði, forsætisráðherrar Norðurlandanna og António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna um Covid-19 og afleiðingar faraldursins. 

Stafræn verðlaunahátíð Norðurlandaráðs 

Þá verður verðlaunahátíð Norðurlandaráðs stafræn að þessu sinni og send út í sjónvarpi í samstarfi við RÚV. Hægt verður að fylgjast með henni á öllum Norðurlöndunum og hefst hún kl. 20.10 annað kvöld. Hér má nálgast lista yfir tilnefningar í hverjum flokki.

Senn lýkur forystuári Íslands í Norðurlandaráði en árið hefur verið óhefðbundið og einkennst af óvissu og aflýstum viðburðum. Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður Framsóknar hefur gegnt embætti forseta síðastliðið ár og Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar embætti varaforseta. Hér má sjá þær kynna rafræna þingviku á twittersíðu Norræns samstarfs:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert