Vilja algera breytingu á fjárlagafrumvarpi

Ragna Sigurðardóttir er forseti UJ.
Ragna Sigurðardóttir er forseti UJ. Ljósmynd/Hari

Ungir jafnaðarmenn (UJ) telja að mikið atvinnuleysi á meðal ungs fólks endurspeglist ekki í efnahagsaðgerðum stjórnvalda vegna Covid-19. Í tilkynningu skora UJ á Alþingi að gera gagngerar breytingar á fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2021. 

Í umsögn sinni um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2021 benda UJ á að nær helmingur atvinnulausra sé ungt fólk á aldrinum 18 til 35 ára samkvæmt nýjustu gögnum Vinnumálastofnunar. 

„Ungir jafnaðarmenn lýsa yfir óánægju með síðasta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og fálæti ríkisstjórnarinnar gagnvart stöðu ungs fólks á vinnumarkaði,“ segir í tilkynningu frá UJ. 

„Ríkisstjórnin hefur ekki sett fram neina áætlun um hvernig megi ná niður atvinnuleysi í landinu og fjölga störfum. Í fjárlagafrumvarpinu er aðeins gert ráð fyrir að atvinnuleysi minnki um 1 prósentustig á árinu 2021 en UJ bendir á að aðgerðir stjórnvalda geta ráðið miklu um þessa þróun.“

Gráu bætt ofan á svart

Þá telja UJ skjóta skökku við að bætur atvinnuleysistrygginga hafi ekki verið hækkaðar. Grunnbæturnar eru undir 240 þúsund krónum á mánuði eftir skatt.

„Þetta er raunin þrátt fyrir að hækkun atvinnuleysistrygginga hafi verið helsta áherslumál samtaka launafólks og þó að flestum sé ljóst að neikvæðar afleiðingar veirukreppunnar á líf fólks skiptast afar ójafnt og bitna langsamlega verst á atvinnulausum og fjölskyldum þeirra,“ segir í tilkynningunni. 

UJ telja að gráu sé bætt ofan á svart með því að ríkisstjórnin neiti stúdentum sem hafa unnið með námi um rétt sinn til atvinnuleysistrygginga, þrátt fyrir að tryggingagjald sé innheimt af launum stúdenta eins og allra annarra. Um 70 prósent stúdenta vinna með námi og nær 90 prósent vinna fullt starf á sumrin.

„Því er ljóst að aðgerðaleysi þegar kemur að því að fjölga störfum og stefna ríkisstjórnarinnar um að halda bótum atvinnuleysistrygginga áfram í lágmarki bitnar sérstaklega á ungu fólki. Það sama á auðvitað við um það óréttlæti að stúdentum sé einum hópa neitað um rétt sinn til atvinnuleysistrygginga,“ segir í tilkynningu UJ sem skora á Alþingi „að taka höndum saman og gera gagngerar breytingar á fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2021.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert