Endurupptökunefnd hefur fallist á beiðni Magnúsar Arnars Arngrímssonar, fyrrverandi starfsmanns Glitnis, um endurupptöku tveggja ára fangelsisdóms, sem hann hlaut fyrir umboðssvik, í Hæstarétti árið 2015. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Forsendur endurupptöku málsins eru fjárhagslegir hagsmunir Markúsar Sigurbjörnssonar, eins dómara málsins í Hæstarétti, en Markús tapaði tæplega átta milljónum á falli Glitnis árið 2008, að því er segir í Fréttablaðinu.
Umfjöllun mbl.is um dóminn á sínum tíma.
Í niðurstöðu nefndarinnar, samkvæmt Fréttablaðinu, segir að í ljósi þeirra fjármuna sem dómarinn tapaði hafi Magnús mátt hafa ástæðu til að draga óhlutdrægni dómstólsins með réttu í efa.
Í málinu voru fjórir ákærðir fyrir umboðssvik, markaðsmisnotkun og brot á lögum um ársreikninga. Mennirnir eru Birkir Kristinsson, sem var starfsmaður einkabankaþjónustu Glitnis, Jóhannes Baldursson, sem var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta, Elmar Svavarsson, sem var verðbréfamiðlari, og Magnús Arnar Arngrímsson, sem var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs.
Ákæran kom til vegna 3,8 milljarða lánveitingar bankans til félagsins BK-44 í nóvember 2007. Félagið var í eigu Birkis og voru Jóhannes, Magnús og Elmar ákærðir fyrir umboðssvik með því að veita félaginu lánið sem notað var til að kaupa bréf í Glitni. Birkir var svo ákærður fyrir hlutdeild í brotinu. BK-44 seldi hlutina á árinu 2008 þegar gert var upp við félagið nam tap Glitnis tveimur milljörðum króna.
Hæstiréttur mildaði dóm héraðsdóms í svokölluðu BK-44-máli. Birkir Kristinsson og Elmar Svavarsson voru dæmdir í fjögurra ára fangelsi, en þeir hlutu fimm ára dóm hvor í héraðsdómi. Dómur yfir Jóhannesi Baldurssyni var mildaður úr fimm árum í þrjú ár og þá var dómur yfir Magnúsi Arnari Arngrímssyni mildaður úr fjórum árum í tvö ár.