Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra lögðu saman fram minnisblað fyrir ríkisstjórn um „aðgerðir til þess að gera erlendum ríkisborgurum sem eru utan EES kleift að dvelja á Íslandi í allt að sex mánuði og stunda vinnu sína hjá erlendum fyrirtækjum í fjarvinnu.“
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins í dag. Breytingin sem lögð er til gerir það að verkum að ríkisborgarar sem undanþegnir eru áritunarskyldu verður heimilt að sækja um langtímavegabréfsáritun á Íslandi fyrir sig og fjölskyldur sínar, starfi þeir í fjarvinnu. Þá þurfi umsækjendur ekki að flytja lögheimili sitt til landsins né fá kennitölu.
Þá segir á vef Stjórnarráðsins að fjölmörg fyrirtæki hafi opnað á fjarvinnu sem áður buðu ekki upp á þann möguleika, í kjölfar heimsfaraldurs Covid-19. Sérfræðingar um heim allan horfi nú eftir fýsilegum dvalarstað fyrir fjarvinnu.
Breytingarnar eru unnar í samstarfi þvert á ráðuneyti sem og í samstarfi við Skattinn. Þá er Íslandsstofu falið upplýsingar- og kynningarhlutverk fyrir aðgerðina.
„Fram til þessa hefur aðeins verið hægt að dvelja hér á landi í 90 daga við slíkar aðstæður. Til að fá heimild fyrir lengri dvöl þarf viðkomandi að sýna fram á ráðningarsamband, tekjur og sjúkratryggingar, segir í tilkynningunni frá Stjórnarráði Íslands,“ segir í tilkynningunni.
Breytingin þessi kallar ekki á lagabreytingu af hálfu hins opinbera en þegar hafa breytingar verið undirritaðar á reglugerð um útlendinga og reglugerð á tekjuskatti og fasta starfsstöð.