Ósáttur við viðbrögð landlæknis

Már Kristjánsson er yfirlæknir smitsjúkdómalækninga og formaður far­sótt­ar­nefnd­ar Land­spít­ala.
Már Kristjánsson er yfirlæknir smitsjúkdómalækninga og formaður far­sótt­ar­nefnd­ar Land­spít­ala. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans og formaður far­sótt­ar­nefnd­ar Land­spít­ala, segist vera ósáttur við þá fregn landlæknis að smit sem kom upp á Landakotsspítala sé atvik sem þurfi að rannsaka. Rúmlega áttatíu kórónuveirusmit eru rakin til smitsins sem upp kom á Landakoti og starfar Landspítalinn nú á neyðarstigi. Már segir álagið mikið.

Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, sagði í samtali við mbl.is í gær, að hópsmitið yrði mögulega tilkynnt sem alvarlegt atvik og yrði það þá rannsakað sem slíkt.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði í Kastljósi í gær að ekki væri útlit fyrir að misbrestur í starfsemi Landakotsspítala hafi gert það að verkum að hópsmitið kom upp.

„Ég er mjög óánægður með fregn sem borist hefur frá landlækni um að þetta sé atvik sem þurfi að rannsaka. Það gengur alveg gegn því sem sagt hefur verið um samstöðu í baráttunni við þennan faraldur. Á farsóttartímum er mikilvægast að rekja smit – rakning er ígildi rannsóknar og rakning er tólið sem við höfum til að finna út hvað er á seyði,“ segir Már í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir einnig að ekki sé útlit fyrir að um neitt glæpsamlegt hafi verið að ræða eða þá að nokkur misbrestur hafi endilega orðið í starfsemi Landakotsspítala.

„Við verðum að geta talað saman,“ segir Már um mismunandi stofnanir og embætti innan heilbrigðisgeirans. „Við erum í rauninni að reyna að rekja smitið eftir bestu getu en ekki að áfellast hvert annað. Starfsmenn, sjúklingar og aðstandendur þeirra þurfa ekki á þessum tímapunkti að heyra af því að það sé verið að rannsaka þá eða að gefa í skyn einhverja vanrækslu af þeirra hálfu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert