Líklega datt engum í hug þegar Hættuspilið var fyrst gefið út árið 1998 að það kæmi til með að leggja grunninn að stofnun eins flaggskipa íslensks atvinnulífs, tæknifyrirtækisins og tölvuleikjaframleiðandans CCP.
Sú varð þó raunin, útgáfa hins geysivinsæla Hættuspils árið 1998 var að mörgu leyti fjáröflun fyrir stofnun CCP. Það er því vel við hæfi að Spilaborg og CCP vinni saman að endurútgáfu borðspilsins nú 22 árum síðar.
Forsvarsmenn Spilaborgar og CCP, ásamt Jóni Gnarr og Sigurjóni Kjartanssyni komu saman í dag í húsakynnum CCP til þess að undirrita samning um útgáfuna. Eins og þekkt er voru þeir Tvíhöfðabræður, Jón og Sigurjón, mjög áberandi á Hættuspilinu gamla. Á því verður engin breyting. Forsala hefst á hádegi næsta föstudag á spilaborg.is.
„Við erum bara að svara eftirspurn og áhuga þjóðarinnar,“ segir Stefán Sigurjónsson, framkvæmdarstjóri Spilaborgar í samtali við mbl.is. „Við erum auðvitað hoknir af reynslu eftir að hafa endurútgefið Útvegsspilið fyrr í ár og síðan við gerðum það þá hefur fólk ítrekað beðið um að Hættuspilið yrði næst. Við erum virkilega stoltir af því að CCP hafi treyst okkur fyrir útgáfunni.“
„Eftir að við tilkynntum á facebook að við ætluðum að gefa út Útvegsspilið aftur þá bara var ekki hægt að ná í mig, svo mikið hringdi síminn hjá mér,“ segir Stefán. „Það var meira að segja einn sem vildi fá að leggja inn á mig 100 þúsund krónur bara svo að hann gæti tryggt sér eintak. Ég á ekki von á því að þetta verði eitthvað öðruvísi nú þegar við tilkynnum um endurútgáfu Hættuspilsins.“
Til þess að tryggja að aðdáendur Hættuspilsins verði ekki fyrir vonbrigðum, verður notuð sama aðferð við endurútgáfuna og var notuð við endurútgáfu Útvegsspilsins: Allt gert eins og í gamla daga.
„Við pössum að allir meginþættir spilsins haldi sér. Allt frá hönnun spilaborðs og spila út í liti. Þetta verður svo allt framleitt bara hérna á Íslandi þannig að vandvirknin verður í fyrirúmi. Samstarfið við CCP er búið að vera virkilega skemmtilegt og ég lít svo á að það sé í rauninni verið að launa okkur vandvirknina við endurgerð Útvegsspilsins, með því að fala okkur að sjá um endurútgáfu þessa klassíska spils sem er búið að vera algerlega ófáanlegt allt of lengi.“
Hættuspilið varð gríðarlega vinsælt þegar það var gefið út árið 1998 og seldist í mörg þúsund eintökum. Þó forvarnir hafi ekki verið aðal markmið spilsins á sínum tíma þá segir Stefán það hafa ákveðið forvarnagildi, enda unnið í samvinnu við SÁA á sínum tíma. „Þú gast lent í „ruglinu“ eða strítt mótspilurum þínum með því að senda þá í „ruglið.“ Þetta skapaði ef til vill umræðu um þessi mál á heimilum fólks sem vonandi hefur verið af hinu góða.“
Stefán segir að stefnt sé á að fá fagaðila til þess að aðstoða við þetta að nýju. „Á sínum tíma var haft samráð við SÁÁ og það er stefnt að því að hafa þann háttinn á núna, en auk þess sem við erum við að leita til annarra samstarfsaðila við að gera upplifun spilsins sem allra skemmtilegasta í takt við upphaflegu útgáfuna.“