Lektor við HR hlýtur tveggja og hálfs milljarða króna styrk

Dr. Erna Sif Arnardóttir lektor leiðir rannsókn á kæfisvefni og …
Dr. Erna Sif Arnardóttir lektor leiðir rannsókn á kæfisvefni og öðrum svefnháðum öndunarerfiðleikum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þróunarverkefnið Svefnbyltingin hefur hlotið tveggja og hálfs milljarða króna styrk til fjögurra ára frá Evrópusambandinu. Hið þverfaglega og alþjóðlega verkefni er leitt af Ernu Sif Arnardóttur, lektor við Háskólann í Reykjavík, en styrkurinn kemur úr Horizon 2020, rammaáætlun ESB fyrir rannsóknir og nýsköpun.

Svefnbyltingin mun rannsaka kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir, en þær eru tengdar margvíslegum heilsufarsvandamálum svo sem hjarta- og æðasjúkdómum.

Erna Sif, sem er lektor við verkfræði- og tölvunarfræðideildir HR og forstöðumaður Svefnseturs sem nýlega var sett á fót, segir að það sé „mikill heiður að fá þetta tækifæri til að leiða helstu sérfræðinga Evrópu á sviði svefnrannsókna og nýsköpunar á því sviði“.

Hún segir verkefnið mjög umfangsmikið og að notuð sé gervigreind til að „umbylta því hvernig rannsóknir á kæfisvefni og öðrum svefnháðum öndunartruflunum, svo sem miklum hrotum, eru gerðar og nýttar“. Þá munu einstaklingar sem taka þátt í rannsóknunum hafa aðgang að sínum eigin gögnum í notendavænu kerfi, og er það gert til að stuðla að persónubundinni heilbrigðisþjónustu, sem er ein af áherslum rannsóknarinnar.

Um helmingur styrksins verður nýttur til rannsókna hér á landi, meðal annars til að byggja upp öruggan gagnagrunn með niðurstöðum úr svefnmælingum á 30.000 einstaklingum sem safnað verður á Íslandi og víðs vegar um Evrópu.

Að rannsóknunum koma vísindamenn við verkfræði-, tölvunarfræði-, sálfræði- og íþróttafræðideildir HR, auk íslensku fyrirtækjanna Nox Medical og Sidekick Health, sem og hátt í 40 samstarfsaðilar í evrópskum háskólum, heilbrigðisstofnunum og fyrirtækjum.

Talið er að allt að einn milljarður manna þjáist af kæfisvefni í heiminum og að efnahagsleg áhrif hans séu mjög mikil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert