Róbert Trausti Árnason, fyrrverandi sendiherra, lést á líknardeild Landspítalans 23. október sl., 69 ára að aldri.
Róbert Trausti fæddist í Reykjavík 24. apríl 1951. Foreldrar hans voru Anna Áslaug Guðmundsdóttir og Árni Guðmundsson. Róbert Trausti lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1973 og BA-prófi frá Félagsvísindadeild Háskóla Íslands árið 1979. Hann stundaði framhaldsnám við Queen's University í Kingston, Kanada og lauk þaðan MA-prófi í stjórnmálafræði árið 1981. Með námi sínu vann Róbert Trausti ýmis störf, var m.a. þulur hjá Ríkisútvarpinu um skeið.
Eftir að hann lauk námi í Kanada var hann ráðinn til starfa hjá Atlantshafsbandalaginu og starfaði sem upplýsingafulltrúi þess í Brussel í Belgíu 1981-86. Þá hóf Róbert Trausti störf hjá utanríkisráðuneytinu og sinnti ýmsum verkefnum bæði hér heima og erlendis. Hann var skipaður sendiherra árið 1990, var skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu 1990-1994 og ráðuneytisstjóri 1994-1995. Árið 1996 var Róbert Trausti skipaður sendiherra Íslands í Danmörku og gegndi því starfi til ársins 1999 þegar hann tók við embætti forsetaritara. Róbert Trausti lét af því starfi í mars árið 2000 þegar hann varð forstjóri Keflavíkurverktaka. Eftir að hann lauk störfum hjá Keflavíkurverktökum árið 2003 starfaði hann m.a. hjá Samtökum atvinnulífsins sem sérlegur erindreki í Brussel og hér heima.
Róberti Trausta var sýndur margvíslegur sómi á starfsferli sínum, hann var t.d. sæmdur stórkrossi Dannebrogsorðunnar árið 1996.
Eftirlifandi eiginkona Róberts Trausta er Klara Hilmarsdóttir guðfræðingur. Synir Klöru eru Kristján Þórðarson og Hilmar Þórðarson.
Útför Róberts Trausta fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík 9. nóvember 2020 kl. 13. Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu og fjöldatakmarkana verða aðeins nánustu aðstandendur viðstaddir en streymt verður frá athöfninni.