Rannsaka umfang smitsins og frekari dreifingu

Riðuveiki hefur verið staðfest á fjórum bæjum.
Riðuveiki hefur verið staðfest á fjórum bæjum. mbl.is/Árni Sæberg

Tekin hafa verið um tvö þúsund sýni úr gripum í Tröllaskagahólfi frá því grunur vaknaði fyrst um riðuveiki á svæðinu. Megnið af sýnunum er úr heilbrigðum gripum sem koma til slátrunar.

Þetta kemur fram í svari Matvælastofnunar við fyrirspurn mbl.is.

Riðuveiki hefur verið staðfest á bæj­un­um Grænu­mýri og Syðri-Hof­döl­um í Blöndu­hlíð og Hofi í Hjalta­dal. Sauðféð sem riðan greind­ist í kom frá Stóru-Ökrum þar sem riða var staðfest í síðustu viku.

Til að taka sýnin eru kindurnar aflífaðar, skorið á efsta hálslið þeirra og sýni tekin úr mænukylfu og litla heila. Að því loknu eru sýnin send á tilraunastöð HÍ á Keldum.

Matvælastofnun rannsakar nú umfang smits hjá þessum fjórum bæjum. Á sama tíma kannar stofnunin frekari dreifingu innan varnarhólfsins.

Riðuveiki er ólæknandi.
Riðuveiki er ólæknandi. mbl.is/Eggert

Hvað er riðuveiki?

Fram kemur á vef stofnunarinnar að riðuveiki sé langvinnur og ólæknandi smitsjúkdómur í sauðfé, sem valdi svampkenndum hrörnunarskemmdum í heila og mænu. 

Smitefnið sé hvorki baktería né veira heldur prótein, sem hafi breytt lögun og við það orðið sjúklegt og fádæma lífseigt, þoli langa suðu og flest sótthreinsiefni nema helst klór.

Þegar próteinið kemst í líkama kindar kemur það af stað keðjuverkun, þar sem önnur prótein komast einnig á umbreytt og sýkjandi form og svo koll af kolli.

Fólki stafi ekki hætta af veikinni

„Þannig fjölgar smitefninu með vaxandi hraða, fyrst í eitlavef, svo í heila og mænu og skemmdirnar þar framkalla einkennin. Kindur geta gengið með riðu langa ævi án þess að hún komi fram,“ segir á vef stofnunarinnar.

„Oftast er þó kindin veik í mánuði áður en hún deyr, sjaldan þó lengur en eitt ár. Veikin leiðir kindina stundum til dauða á fáum vikum, eða á skemmri tíma. Smitefnið virðist lifa í umhverfinu í meira en áratug og getur komið upp á sama bæ oftar en einu sinni.“

Engar vísbendingar séu um að fólki stafi hætta af snertingu við riðusmitað fé né neyslu afurða þess, svo sem kjöts, innmatar og mjólkur.

„Þannig að hvorki neytendur né fólk sem starfar á sauðfjárbúum eða í sláturhúsum eru í hættu vegna riðuveiki í sauðfé.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert