Alls eru nú 140 kórónuveirusmit rakin til hópsmitsins á Landakotsspítala og fjölgar þeim frá því í gær, þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna fyrir hádegi.
Inniliggjandi á Landspítala eru nú samtals 62 sjúklingar og hafa þá alls 125 sjúklingar lagst inn á Landspítala vegna Covid-19 frá upphafi þriðju bylgju. Þetta kemur fram í nýju yfirliti farsóttanefndar og viðbragðsstjórnar Landspítalans, þar segir þó að 122 smit séu rakin til hópsmitsins á Landakoti, þar af 62 starfsmenn og 60 sjúklingar.
Sóttvarnalæknir segir þó að ef afleidd smit eru tekin í reikninginn líka, hækki talan upp í 140.
Tveir eru á gjörgæslu og einn í öndunarvél. Þrjú andlát hafa orðið það sem af er þriðju bylgju faraldursins, það gera þá 13 andlát í heildina frá upphafi.
Sjúklingar á Landakotsspítala voru ýmist færðir til innan heilbrigðiskerfisins þegar upp komst um hópsmitið þar í síðustu viku. Núna eru því sex starfsmenn og fimm sjúklingar á Reykjalundi með kórónuveiruna, 10 starfsmenn og 16 sjúklingar á Sólvöllum og 43 starfsmenn og 38 sjúklingar á Landakoti. Samtals 62 starfsmenn og 60 sjúklingar eins og fyrr segir.
Nú eru 1.009 einstaklingar undir eftirliti Covid-19 göngudeildar en þeir voru 1.086 í gær. Af þessum 1.009 eru 178 börn en þau voru 193 í gær.
Starfsmönnum Landspítala í einangrun fjölgar þó, 60 starfsmenn eru í einangrun en þeir voru 57 í gær. Þá fækkar hins vegar starfsmönnum spítalans sem eru í sóttkví, þeir eru 2569 í dag en voru 269 í gær.