Sveinn Andri hafði betur í Hæstarétti

Skúli Gunnar Sigfússon og Sveinn Andri Sveinsson hafa tekist hart …
Skúli Gunnar Sigfússon og Sveinn Andri Sveinsson hafa tekist hart á í tengslum við uppgjör á þrotabúi EK1923. Sveinn Andri vann málið nú síðdegis í Hæstarétti. mbl.is/Samsett mynd

Skúli Gunnar Sigfússon, gjarnan kenndur við Subway, tapaði nú síðdegis í Hæstarétti fyrir þrotabúi EK1923, en skiptastjóri þess, Sveinn Andri Sveinsson, hafði farið fram á að Skúli myndi greiða þrotabúinu umtalsverða upphæð. Skúli var áður eigandi EK1923, en nokkur mál tengd þrotabúinu hafa farið fyrir dómstóla.

Félagi Skúla var gert að greiða þrotabúinu tæpar 223 milljónir króna með dráttarvöxtum, samtals yfir 400 milljónir. Þá er félagi í eigu Skúla gert að endurgreiða þrotabúinu ríflega 21 milljón króna með vöxtum.

„Þetta er bara eins og ég og kröfuhafarnir lögðum upp með og er að mínu mati rétt niðurstaða,“ segir Sveinn Andri í samtali við mbl.is. Hann segir að málinu sé núna lokið.

„Þetta er lokahnykkurinn.“

Skúli og Sveinn Andri hafa um árabil eldað grátt silfur saman og er þetta ekki fyrsta dómsmálið sem þeir höfða hvor gegn öðrum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert