Taka ekki mið af vísitölu

Gluggaþvottur í fjármálaráðuneytinu.
Gluggaþvottur í fjármálaráðuneytinu. mbl.is/Hari

Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis óskaði eftir að fjármálaráðuneytið svaraði því hvers vegna bætur almannatrygginga hækki einungis um 3,6% á næsta ári þegar gert sé ráð fyrir að laun hækki um 5,2%. Í fjárlagafrumvarpinu er spáð 5,2% hækkun launa á næsta ári.

Bæturnar eiga að breytast árlega og taka mið af launaþróun. Í svari ráðuneytisins á minnisblaði til nefndarinnar segir að við mat á launaþróun hafi verið vaninn að miða við meðalhækkanir í kjarasamningsbundnum hækkunum á almennum vinnumarkaði. Í sumum tilvikum hafi slíkir samningar falið í sér einfaldar og samræmdar prósentuhækkanir en í öðrum hafi verið meiri breytileiki milli félaga og hópa og því hafi þurft að afla frekari upplýsinga til að reikna meðalhækkunina. Ekki hafi tíðkast að taka mið af launavísitölu enda feli hún m.a. í sér launaskrið, t.d. vegna innbyggðra aldurshækkana o.fl. sem ekki eigi að reikna inn í verðlagsbreytingar á bótum almannatrygginga ,,enda eru þær ekki laun fyrir vinnuframlag“. Skv. mati á samningum séu almennar meðalprósentuhækkanir launa 2021 áætlaðar 3,6%. Það sé sú prósenta sem notuð er fyrir bætur almannatrygginga.

Öryrkjabandalagið (ÖBÍ), Landssamband eldri borgara (LEB), ASÍ og fleiri gagnrýna í umsögnum að bæturnar hækki aðeins um 3,6% á næsta ári. Það þýði í raun að mati ÖBÍ 9.201 kr. hækkun óskerts lífeyris í 265.044 kr. LEB fullyrðir að launaþróunin sé og hafi verið allt önnur en sú 3,6% hækkun sem lögð er til í frumvarpinu. ASÍ telur varhugavert að nota meðaltaxtahækkanir sem viðmið fyrir lægstu kjör.

Hækkun krónutölugjalda í 3,2% myndi skila 500 milljónum

Þingnefndin spyr ráðuneytið einnig hvað tekjur ríkissjóðs myndu aukast mikið ef krónutölugjöldin hækki um 3,2% um áramót en ekki 2,5% eins og gert er ráð fyrir. Segir í svarinu að ætla megi að tekjur af hækkun krónutölugjalda myndu þá hækka um 500 milljónir.

omfr@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert