Næsta vor verða komnir teljarar við gönguleiðir á 24 vinsælum ferðamannastöðum víða um land.
Nýju teljararnir gefa mikilvægar upplýsingar strax daginn eftir um álag á viðkomandi stað og eru þær einnig dýrmætar fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu á viðkomandi svæði um fjölda einstaklinga á ferðinni.
Um er að ræða samstarfsverkefni Ferðamálastofu og Umhverfisstofnunar og kostar hver nýr mælir um 600 þúsund krónur, að sögn Jakobs Rolfssonar á Ferðamálastofu.
Áður voru teljarar komnir upp í Dimmuborgum, austan og vestan Goðafoss, við Gullfoss, í þjóðgarðinum á Þingvöllum og í sumar var settur upp teljari við Geysi. Fyrsta áfanga verkefnisins lauk um miðjan október með uppsetningu á teljurum við Hvítserk, Dynjanda, Súgandisey, Saxhól, Hraunfossa og Seltún. Talning er byrjuð að skila sér af fjórum áfangastöðum og bætast Dynjandi og Súgandisey við á næstu dögum.
Annar áfangi hefst í byrjun nóvember og verða teljarar þá settir upp við Dettifoss, Stuðlagil, Jökulsárlón, Skaftafell, Fjaðrárgljúfur, Reynisfjöru og í Reykjadal. Áætlað er að þriðja áfanga ljúki svo næsta vor en þá verða settir upp teljarar við Fimmvörðuháls, Laugaveginn, Látrabjarg og Hveravelli. aij@mbl.is