Sagnfræðingafélag Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna útgáfu bókar þar sem Helförinni er hafnað. Bókin sem um ræðir ber heitið The Hoax of the Twentieth Century: The Case Against the Presumed Extermination of European Jewry. Í henni er dregið í efa að helförin hafi átt sér stað.
Bókin var nýverið þýdd á íslensku og verður hluti af jólabókaflóðinu hér á landi í ár. Í yfirlýsingu Sagnfræðingafélags Íslands er bókin fordæmd, en hún hefur m.a. verið birt í Bókatíðindum.
„Sagnfræðingafélag Íslands bendir á að í bók eftir bandarískan rafmagnsverkfræðing sem væntanleg er á íslenskan bókmarkað er því hafnað að Helförin hafi átt sér stað. Bókin stenst engan veginn þær fræðilegu kröfur sem gerðar eru til sagnfræðirita eða fræðirita almennt. Fjölmargar rannsóknir og vitnisburðir sjónarvotta afsanna allt það sem haldið er fram í bókinni sem kom fyrst út vestra árið 1976,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá kemur enn fremur fram í yfirlýsingunni að tilgangur bókarinnar sé fyrst og fremst að kasta ryki í augu lesenda og afvegaleiða fræðilega umræðu. Þá skorar félagið á þar til bær stjórnvöld að taka nú þegar skref í þá átt að efla sögukennslu í grunn- og framhaldsskólum. Þannig geti fólk forðast rit sem samin eru í vafasömum tilgangi og standast ekki fræðilegar kröfur.