Umfang gæludýrahalds í Reykjavík er óljóst og skráningar eru ófullnægjandi. Leiða má líkum að því að einn eða fleiri hundar séu nú á a.m.k. 9.000 heimilum í borginni en einungis ríflega 2.000 hundar eru hins vegar á skrá í Reykjavík.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu stýrihóps um þjónustu við gæludýr sem lögð var fram í umhverfis- og heilbrigðisráði sl. miðvikudag.
Þar kemur fram að leiða megi rök að því að kettir séu á um 30% heimila í borginni og því gæti köttur verið á ríflega 16.000 heimilum. Áætlað er að um 40% borgarbúa eigi gæludýr.
Stýrihópurinn bendir á að sífellt séu að verða ljósari jákvæð áhrif gæludýra á fólk, gæludýrahald geti leitt til aukinnar útiveru og dregið úr félagslegri einangrun og einmanaleika. Leggur hópurinn fram fjölda tillagna um úrbætur og bætta þjónustu við gæludýraeigendur með kostnaðaráætlunum. Er m.a. lagt til að öll málefni dýra í borginni verði sameinuð undir einum hatti undir nafninu Dýraþjónusta Reykjavíkur (DÝR), sem staðsett verði í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.