„Þetta er sigur og tap,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja eftir niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli hans og Samherja gegn Seðlabanka Íslands. Þorsteini voru dæmdar skaðabætur en Seðlabankinn var sýknaður af ríflega 300 milljóna krónu skaðabótakröfu Samherja. Þorsteinn segir að málinu verði áfrýjað.
„Bankinn er sakfelldur í mínu máli og dæmdur til að greiða mér skaða, máls og miskabætur. Það finnst mér vera sigur fyrir mig. Hins vegar er Seðlabankinn sýknaður í máli Samherja gegn honum og það eru að sjálfsögðu vonbrigði,“ segir Þorsteinn Már.
Hann segir að við fyrstu yfirferð líti málið þannig út ekki sé samræmi í þessum dómum. Í ljósi þessa ósamræmis muni dómnum verða áfrýjað. „Það liggur fyrir,“ segir Þorsteinn spurður um málið.
Hann segir vissulega íþyngjandi að standa áfram í þessum málarekstri sem hófst fyrir 8 árum en hafa beri í huga að til þess hafi Samherji haft betur. „Þetta er búið að vera íþyngjandi í átta ár og búið að vera löng leið fyrir Samherja en við höfum haft sigur í lokin hingað til. Það þarf að hafa það í huga,“ segir Þorsteinn.
Þorsteinn fékk um 2,5 milljónir króna í skaðabætur og 200 þúsund krónur til viðbótar í miskabætur. Krafa Samherja á Seðlabankann hljóðaði upp á um 306 milljónir króna og um 10 milljónir króna í miskabætur.
Dómsmálið má rekja til þess þegar Seðlabanki sektaði Samherja um 15 milljónir fyrir meint brot á gjaldeyrislögum. Sektin var hins vegar afturkölluð eftir niðurstöðu Hæstaréttar um að engin refsiheimild hafi verið í lögunum.