Seðlabankinn greiði Þorsteini skaða- og miskabætur

Við upphaf aðalmeðferðar í síðasta mánuði.
Við upphaf aðalmeðferðar í síðasta mánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Seðlabanki Íslands hefur verið dæmdur til að greiða Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, tæpar 2,5 milljónir króna í skaðabætur og 200 þúsund krónur til viðbótar í miskabætur.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem féll í dag, er þeim sjónarmiðum Seðlabankans hafnað, að röng túlkun bankans á refsiheimildum og beiting sektarheimildar í máli Þorsteins hafi verið afsakanleg.

Röng túlkun á refsiheimildum laga

„Verður því lagt til grundvallar að sú ranga túlkun á refsiheimildum sem stefndi viðhafði við meðferð máls stefnanda [Þorsteins] og þegar stefndi [Seðlabankinn] tók ákvörðun um að leggja á hann sekt 1. september 2016 hafi falið í sér saknæma og ólögmæta háttsemi,“ segir meðal annars í dómnum.

Komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að Seðlabankinn hefði lagt til grundvallar ranga túlkun á refsiheimildum laga um gjaldeyrismál. Afgreiðsla og málsmeðferð bankans hefðu ekki verið í samræmi við lög.

Skaðabótaskyldur vegna tjóns

„Þegar horft er til atvika málsins, og þá einkum þeirra krafna sem gera verður til stjórnvalda þegar þau fara með vald til að taka ákvarðanir sem falla undir 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar, verður að telja að meðferð og afgreiðsla málsins af hálfu starfsmanna stefnda hafi verið haldin slíkum annmörkum að skilyrðinu um saknæmi sé fullnægt og stefndi sé því skaðabótaskyldur vegna tjóns stefnanda,“ segir í dómnum.

Voru Þorsteini fyrir þetta dæmdar 2.480.000 kr. í skaðabætur.

Ólögmæt meingerð

Enn fremur lagði dómurinn til grundvallar, að sú ákvörðun Seðlabankans að leggja stjórnvaldssekt á Þorstein, hefði falið í sér ólögmæta meingerð gegn persónu hans í skilningi skaðabótalaga.

Fyrir þetta voru honum dæmdar, eins og áður sagði, 200.000 kr. í miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert