Robert Burke flotaforingi og yfirmaður bandaríska sjóhersins í Evrópu segir bandaríska herinn vera að íhuga aukna fjárfestingu hér á landi sem myndi fjölga þjónustusvæðum fyrir flotann við Íslandsstrendur. Herinn sé að kanna hvort „eitthvað verðmæti sé í litlu, varanlegu fótspori frá Bandaríkjunum“ á Íslandi.
„Á Íslandi eru nokkrar þjónustustöðvar fyrir NATO. Við erum að kanna hvað þyrfti til að stækka við þær stöðvar, fjárfesta í þeim,“ sagði Burke á fundi sem haldinn var í sendiráðinu í dag. „Mig langar mikið í þá valkosti sem við höfðum fyrir 25 til 30 árum síðan, með tilliti staða sem hægt er að lenda á og athafna sig.“
Hann segir herinn líta sérstaklega til Austurlands þar sem slíkur staður væri „hentugri“ fyrir hernaðaraðgerðr en t.d. höfuðborgarsvæðið, vegna nálægðar við svæðin sem rússneskir kafbátar athafna sig reglulega. Auk þess myndi slík aðstaða geta stutt undir öflugri leit og björgun á hafsvæðum umhverfis Ísland.
Ekki er búið að ræða við íslensk yfirvöld um þessi áform en hugmyndinni hefur verið velt upp, að sögn Burke. „Ég veit ekki hve móttækileg ríkisstjórnin ykkar er í þessu máli, svo við verðum að eiga það samtal.“