Alls eru nú 132 kórónuveirusmit rakin til hópsmitsins á Landakotsspítala, samkvæmt talningu Landspítala, og fjölgar þeim þar um tíu. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði smitin 140 í gær en tekur afleidd smit með í reikninginn.
Inniliggjandi á Landspítala eru nú samtals 64 sjúklingar og hafa þá alls 127 sjúklingar lagst inn á Landspítala vegna Covid-19 frá upphafi þriðju bylgju. Þetta kemur fram í nýju yfirliti farsóttanefndar og viðbragðsstjórnar Landspítalans.
Þar af eru tveir á gjörgæslu og einn í öndunarvél. Þrjú andlát hafa orðið það sem af er þriðju bylgju faraldursins, það gera þá 13 andlát í heildina frá upphafi.
Sex starfsmenn og sex sjúklingar á Reykjalundi eru með kórónuveiruna, 12 starfsmenn og 16 sjúklingar á Sólvöllum og 50 starfsmenn og 39 sjúklingar á Landakoti.
Nú eru 995 einstaklingar undir eftirliti Covid-19 göngudeildar en þeir voru 1.009 í gær. Af þessum 995 eru 178 börn, jafnmörg og í gær.
Starfsmönnum Landspítala í einangrun fjölgar þó, 64 starfsmenn eru í einangrun en þeir voru 60 í gær. 244 starfsmenn eru í sóttkví.