Smitum tengdum Landakoti fjölgar

Landakotsspítali.
Landakotsspítali. mbl.is/Golli

Alls eru nú 132 kór­ónu­veiru­smit rak­in til hópsmits­ins á Landa­kots­spít­ala, samkvæmt talningu Landspítala, og fjölgar þeim þar um tíu. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði smitin 140 í gær en tekur afleidd smit með í reikninginn.

Inniliggj­andi á Land­spít­ala eru nú sam­tals 64 sjúk­ling­ar og hafa þá alls 127 sjúk­ling­ar lagst inn á Land­spít­ala vegna Covid-19 frá upp­hafi þriðju bylgju. Þetta kem­ur fram í nýju yf­ir­liti far­sótta­nefnd­ar og viðbragðsstjórn­ar Land­spít­al­ans.

Þar af eru tveir á gjörgæslu og einn í öndunarvél. Þrjú and­lát hafa orðið það sem af er þriðju bylgju far­ald­urs­ins, það gera þá 13 and­lát í heild­ina frá upp­hafi.

Sex starfsmenn og sex sjúklingar á Reykjalundi eru með kórónuveiruna, 12 starfsmenn og 16 sjúklingar á Sólvöllum og 50 starfsmenn og 39 sjúklingar á Landakoti.

Nú eru 995 ein­stak­ling­ar und­ir eft­ir­liti Covid-19 göngu­deild­ar en þeir voru 1.009 í gær. Af þess­um 995 eru 178 börn, jafnmörg og í gær.

Starfs­mönn­um Land­spít­ala í ein­angr­un fjölg­ar þó, 64 starfs­menn eru í ein­angr­un en þeir voru 60 í gær. 244 starfsmenn eru í sóttkví.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert