Eiga erfitt með að fylgja reglum sökum ástands

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum. mbl.i/Kristinn Magnússon

Fólk innan jaðarsettra hópa samfélagsins á í mörgum tilvikum erfitt með að fylgja þeim sóttvarnareglum sem eru í gildi, að sögn Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns hjá almannavörnum. Lögreglan hefur unnið með á þriðja tug fólks í slíkum hópum sem hefur greinst smitað af Covid-19 að undanförnu. 

Frú Ragnheiður, skaðaminnkandi verkefni á vegum Rauða krossins, hefur aðstoðað lögregluna við að koma upplýsingum til fólksins. 

„Fyrst og fremst er þetta fólk sem á erfitt, þetta eru hópar sem við köllum jaðarsetta og eru ekki almennt að vinna inni í samfélaginu okkar. Það eru fyrst og fremst þeir hópar sem við höfum verið í samskiptum við og eiga erfitt með að fylgja þeim reglum sem eru í gangi, bæði vegna þess ástands og líka vegna þeirrar leiðar sem þau hafa ákveðið að velja í lífinu,“ segir Víðir.

Sektir myndu engu skila

Svo sektir eða refsingar fyrir brot myndu engu skila í þessum efnum? 

„Sektir myndu ekki skila neinu hjá þessum hópi. Það sem skilar í þessum hópi er að vinna traust þeirra, fá þau með okkur í þetta, fá þau í sýnatöku og síðan þá að koma þeim undir aðstoð lækna þegar þau hafa verið að veikjast vegna Covid. Þetta er orðin tiltölulega stór hópur sem við reynum að halda utan um í þessu,“ segir Víðir. 

Til þess að koma til móts við jaðarsettu hópana og ná til þeirra hafa almannavarnir verið í samstarfi við heilbrigðiskerfið og Frú Ragnheiði.

„Frú Ragnheiður hefur verið okkar tengiliður í því að koma til þeirra upplýsingum og aðstoð. Það hefur skipt mjög miklu máli þannig að þetta eru einhverjir tugir í viðbót sem hafa verið tekin sýni frá og verið útsett og við höfum verið að leita leiða til þess að þau geti verið í einangrun,“ segir Víðir.

Er þessi hópur þá í einhverju sérstöku eftirliti?

„Í sjálfu sér ekkert öðruvísi en aðrir. Við erum að reyna að miðla til þeirra upplýsingum um að fara varlega og passa upp á hvert annað eins og menn gera en þetta er auðvitað hópur sem er mjög erfitt að ná til þegar þau eru í sínu versta ástandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert