Guðni Th. Jóhannesson forseti segir heilbrigðikerfið undir einstöku álagi og ábyrgð Íslendinga mikla í þessu ástandi. Hann ávarpaði heilbrigðisstarfsfólk í myndbandi í gær ásamt Elizu Reid forsetafrú.
„Fyrir hönd allra íbúa landsins sendum við ykkur innilegar þakkir. Þið standið vaktina að nóttu sem degi. Þið standið vaktina í þjóðarþágu, á Landspítala og öðrum sjúkrahúsum, á heilsugæslustöðvum og hjúkrunarheimilum, í heimahjúkrun og víða annars staðar,“ sagði Guðni.
„Margir fleiri eiga þakkir skildar en um þessar mundir er heilbrigðiskerfi okkar undir einstöku álagi. Ábyrgð okkar hinna er mikil. Við þurfum hvert og eitt að gera allt sem í okkar valdi stendur til að létta ykkur störfin. Við þurfum að stuðla að því að ykkur gangi sem allra best að verja þá sem eru veikastir fyrir.“
Þá gerði Guðni tilraun til að stappa stáli í þjóðina og sagði að senn myndi okkur takastað vinna bug á veirunni.
„Þessum vágesti sem enn verður fólki að aldurtila og veldur svo miklum usla. Þá munu vísindi og þekking skipta sköpum en við þurfum líka að njóta samstöðu og samúðar,“ sagði Guðni.
„Hermt er að frægur mannfræðingur hafi eitt sinn verið spurður hver hún teldi fyrstu merki um menningu meðal mannkyns. Voru það tilhöggnir steinar eða leirker? Nei, var svarið, það myndi frekar vera ævafornt mannabein, brotinn lærleggur sem hafði verið búið um svo að greri um heilt. Einhver hafði lagt það á sig að hjálpa þeim sem var hjálpar þurfi. Það var menning, það var mennska.“