Fulltrúar fimm stéttarfélaga starfsmanna álversins í Straumsvík og Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Rio Tinto undirrituðu nýjan kjarasamning fyrir starfsmenn í fyrrakvöld. Samningurinn gildir til 31. maí á næsta ári og er afturvirkur frá og með 1. júní sl.
Samkomulag um þennan skammtímasamning náðist í seinustu viku en undirritun stéttarfélaganna var frestað þar sem félögin vildu freista þess að ná samningi til lengri tíma eða í samræmi við gildistíma lífskjarasamninganna.
Var boðuðum verkfallsaðgerðum þá frestað til 5. nóv. á meðan gerð yrði tilraun til að ná samningi til lengri tíma. Það tókst þó ekki og er samningurinn sem undirritaður var sl. fimmtudag óbreyttur. „Það eru engar viðbætur við þetta. Þetta er eingöngu árssamningur og er afturvirkur frá 1. júní,“ segir Kolbeinn Gunnarsson, formaður Hlífar. Menn verði því að hefja viðræður fljótlega eftir áramót um kjarasamning sem taki við þegar samningurinn rennur út 1. júní nk. „Þetta er staðan núna og við ákváðum að taka bara þetta eina ár. Þeir höfðu ekki heimild til að gera lengri samning.“ omfr@mbl.is