Nú eru 135 smit kórónuveiru tengd hópsmiti sem kom upp á Landakoti nýverið. 72 þeirra greindust á meðal starfsfólks og 63 á meðal sjúklinga. Stærstur hluti hinna smituðu eru starfsmenn og sjúklingar Landakots en einnig eru smit á meðal starfsmanna og sjúklinga Reykjalundar og hjúkrunarheimilisins Sólvalla á Eyrarbakka.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landspítala.
„Eins og búast mátti við greinast enn smit hjá starfsfólki og sjúklingum sem voru útsettir á Landakoti fyrir Covid-19. Ekkert nýtt smit hefur greinst utan hins skilgreinda útsetta hóps starfsmanna og sjúklinga,“ segir í tilkynningunni.
Tveir þeirra fjögurra sem nú liggja á gjörgæsludeild Landspítala vegna Covid-19 eru í öndunarvél. 64 sjúklingar eru nú inniliggjandi á Landspítala vegna Covid-19.
980 sjúklingar eru í eftirliti Covid-19-göngudeildar, þar af 162 börn. 63 starfsmenn eru í einangrun vegna Covid-19 og 238 starfsmenn eru í sóttkví.
54 starfsmenn Landakots eru smitaðir, sex starfsmenn Reykjalundar og 12 starfsmenn Sólvalla. Þá er 41 sjúklingur á Landakoti smitaður, sex á Reykjalundi og 16 á Sólvöllum.