Eigi að lögleiða dánaraðstoð þarf að útkljá ýmis álitamál. Mun rétturinn einnig ná til fólks sem vill ferðast til að hljóta meðferð og hvernig á að skilgreina dauðdagann þegar kemur að löggerningum á við líftryggingar? Arnar Vilhjálmur Arnarsson lögmaður fjallar um þessi mál í Sunnudagsblaðinu.
Rétturinn til dánaraðstoðar hefur aðeins verið leiddur í lög á fáum stöðum og þangað hefur viljað leita fólk búsett þar sem rétturinn er ekki til staðar. Arnar segir að huga þurfi sérstaklega að þessum hópi í grein sinni og kemur þar fram að í heilbrigðisráðuneytinu hafi verið kosið að nefna þetta fyrirbæri sjálfsmorðsferðalög.
Segir Arnar að mikilvægt sé að hafa gert upp hvort „einnig eigi að heimila slíka þjónustu við erlenda „ferðamenn“, jafnframt þá hvað aðstoðin eigi að kosta og loks hvort hún skuli framkvæmd af opinberum aðilum eða með leyfi einkaaðila“.
Þá er spurning hvernig eigi að skilgreina slíkan dauðdaga þannig að til dæmis tryggingabætur fáist greiddar. Er slíkur dauðdagi náttúrulegur eða ónáttúrulegur? Skoða þurfi um leið hvort eigi að takmarka slíkan bótarétt því að þrýstingur geti skapast á sjúkling í viðkvæmum aðstæðum þannig að hann óski dánaraðstoðar til að veita sínum nánustu fjárhagslega aðstoð. Á hinn bóginn gæti slík takmörkun orðið til þess að sárþjáður sjúklingur leiti ekki dánaraðstoðar til þess að tryggja að hann nánustu fái tryggingabæturnar óskertar.
Arnar segir í grein sinni að takast þurfi á við margar spurningar eigi að lögleiða dánaraðstoð, en helsta markmiðið hljóti að vera að marka henni „skynsaman lagaramma, í samráði við fulltrúa heilbrigðisstétta, sem allt í senn þjónar tilgangi lögleiðingarinnar, tryggir vernd viðkvæmari hópa samfélagsins og tekur tillit til alls þess sem reynsla annarra þjóða sýnir okkur“.
Grein Arnars er sú síðasta af fjórum, sem birst hafa í Sunnudagsblaðinu undanfarnar vikur. Þær eru byggðar á meistararitgerð, sem hann skrifaði um dánaraðstoð og var einnig notuð í nýbirtri skýrslu heilbrigðisráðherra um efnið.
Lesa má greinina í heild sinni í vefútgáfu Morgunblaðsins.