Gæti valdið vandræðum fyrir teymisstarf

Börn á leiðinni í skólann.
Börn á leiðinni í skólann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjöldatakmarkanir gætu valdið vandræðum í skólum þar sem mikið teymisstarf er á stórum svæðum. Þetta segir Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands, spurður út í væntanlega reglugerð um tilhögun skólastarfs í ljósi hertra sóttvarnareglna.

Einnig telur hann nýjar reglur geta haft áhrif á aðgengi að skólum.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, greindi frá því dag að 50 barna hólf verða á yngstu skólastigunum en 25 barna hólf á þeim eldri. Horft er til fjórða og fimmta bekkjar varðandi mörkin á milli yngri og eldri skólastiga í þessu samhengi. Tveggja metra regla verður á efstu skólastigunum en ákveðinn sveigjanleiki með grímunotkun.

Þorsteinn segir það markmið hagsmunaaðila sem hafa starfað með yfirvöldum að hægt verði að halda uppi sem mestu skólastarfi. „Það skiptir mestu máli fyrir börnin að skólastarf sé með sem eðlilegustum hætti.“

Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands.
Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands. Ljósmynd/Kennarasambandið

Hann segist vona að takmarkanir verði sem minnstar en segir ljóst að grímuskylda verði í skólum fyrir nemendur í fimmta til tíunda bekk.

Hann segir að nóg verði að gera hjá skólafólki á skipulagsdegi á morgun við að undirbúa skólann á þriðjudaginn. „Það þarf að finna bestu útkomuna á hverjum stað til að halda áfram skólastarfi með sem minnstum takmörkunum,“ greinir hann frá.

Hann segist spenntur að fá að sjá reglugerðina sem hefur verið í vinnslu um helgina og að því fyrr sem hún líti dagsins ljós því betra fyrir skólayfirvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert