Hættulegar aðstæður fyrir rjúpnaveiðimenn

Gul viðvörun verður í gildi víða á morgun.
Gul viðvörun verður í gildi víða á morgun. Skjáskot/vedur.is

Gul viðvörun verður í gildi á morgun, mánudag, á Norðurlandi eystra, Austfjörðum og miðhálendinu að því er fram kemur á vef Veðurstofu.

Á Norðurlandi eystra er þá spáð vestanhvassviðri eða -stormi 15-23 m/s með éljum og hvössum vindstrengjum við fjöll, um 30 m/s. Búast má við lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum á fjallvegum. 

Á Austfjörðum er spáð norðvestan stormi eða roki 18-28 m/s. Búast má við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll 30-45 m/s. Samgöngutruflanir líklegar og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Nauðsynlegt er að tryggja lausamuni til að fyrirbyggja foktjón og er fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám, segir í veðurspánni.

Á miðhálendinu er spáð vestan- og norðvestanstormi og éljagangi:

Vestan og norðvestan 15-23, en hvassara við fjöll með hvössum vindhviðum 30-40 m/s, einkum norðaustan til. Lægir vestan til á morgun, en hvassara austan til. Búast má við lélegu skyggni í éljum og skafrenningi, sem getur skapað mjög hættulegar aðstæður fyrir rjúpnaveiðimenn.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert