Skotveiðifélag Íslands, SKOTVÍS, furðar sig á því að tilmælum um að fólk haldi sig heima og forðist útivist sé helst beint til veiðimanna „en ekki annarar útivistar þar sem fólk er í meiri nánd t.d. ferðalaga í sumarbústaði“.
Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu félagsins.
Þar kemur fram að skotveiðimenn hafi óskað eftir fundi með Umhverfisstofnun um komandi veiðitímabil. Þann fund fengu þeir ekki og fimm klukkustundum áður en rjúpnaveiðitímabilið hófst í nótt sendi almannavarnadeild ríkislögreglustjóra frá sér yfirlýsingu um að allir ættu að halda sig heima án samtals við veiðimenn.
„Með samtali hefði t.d. verið hægt að fresta fyrstu helginni og bæta þá við annarri í byrjun desember og/eða opna SV-svæðið fyrir skotveiðum. Einfaldar aðgerðir sem mótvægi en fengu ekki umræðu.“