200 krónur af hverri sendingu til góðs

Matvöruverslunin Nettó.
Matvöruverslunin Nettó. Kristinn Magnússon

Matvöruverslunin Nettó hefur tilkynnt að fyrirtækið ætli að styrkja góðgerðarsamtök. Þannig munu 200 krónur af hverri sendingu úr netverslun fyrirtækisins renna til góðgerðarmála. Viðskiptavinir geta valið málefni eða góðgerðarsamtök á heimasíðu fyrirtækisins.

Í tilkynningu segir að verkefnið beri yfirskriftina: Notum netið til góðra verka.

Þá segir að óskað sé eftir tillögum frá viðskiptavinum um hvaða góðgerðarsamtök eigi að styðja. Netverslun Nettó er sögð langstærsta netverslun landsins með matvöru.

„Eftir að hafa velt fyrir okkur mörgum góðum og verðugum samtökum tókum við ákvörðun um að óska eftir hugmyndum frá viðskiptavinum okkar. Þannig getum við tekið þetta allt saman og séð hvar þörfin er mest eða hvaða málefni á best við samfélagsstefnu okkar. Okkar von er að sem flestar ábendingar berist því þetta er hvorki fyrsta né síðasta verkefnið af þessu tagi sem Nettó ræðst í,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa, í tilkynningu. 

„Sala í netverslun Nettó hefur margfaldast síðan kórónuveirufaraldurinn fór af stað og þetta er því tækifæri fyrir okkur að gefa til baka. Því varð slagorðið Notum netið til góðra verka fyrir valinu. Hægt er að panta úr netverslun Nettó á öllum svæðum þar sem við starfrækjum verslanir og því getur meirihluti þjóðarinnar látið gott af sér leiða,“ segir Gunnar í tilkynningu.

Verkefnið stendur út nóvember og geta viðskiptavinir valið úr málefnum eða góðgerðarsamtökum á heimasíðu Nettó segir í tilkynningu.

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert