Ekkert nýtt smit hefur greinst á Landakoti utan hins skilgreinda útsetta hóps starfsmanna og sjúklinga og ekki hefur greinst smit síðustu tvo sólarhringa sem tengist hópsýkingunni sem þar kom upp í síðustu viku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landspítala. Alls hafa 72 heilbrigðisstarfsmenn smitast í hópsmitinu og 67 sjúklingar.
Viðbragðsstjórn og farsóttanefnd ákváðu á laugardag að bregðast við miklum fjölda COVID-smitaðara sem þarfnast innlagnar með opnun nýrrar deildar á Landakoti. Hún hefur þegar tekið til starfa en þar eru níu einbýli.
„Tekist hefur að manna 20 stöðugildi hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða en læknisþjónustu og annarri stoðþjónustu er sinnt með hefðbundnum hætti. Starfsfólki öllu, mönnunarteymi, smiðum sem og öðru starfsfólki, eru þökkuð snöfurmannleg viðbrögð við þessari beiðni,“ segir í tilkynningunni.
Á Landspítala eru nú 68 sjúklingar inniliggjandi vegna Covid-19, þar af þrír á gjörgæslu og einn þeirra í öndunarvél. 72 eru alls inniliggjandi á sjúkrahúsi skv. covid.is. 136 hafa alls lagst inn á Landspítala frá upphafi þriðju bylgju faraldursins.
829 sjúklingar eru í eftirliti Covid-19-göngudeildar, þar af 131 barn. 60 starfsmenn eru í einangrun vegna Covid-19 og 230 starfsmenn í sóttkví.