Eftir snjóflóðin á Flateyri í janúar síðastliðnum þarf að endurskoða hættumat undir nokkrum varnargörðum sem reistir hafa verið hér á landi á síðustu árum, að mati Veðurstofu Íslands.
Kemur þetta fram í erindi Veðurstofu vegna byggingaráforma bæjarfélaga á Vesturlandi.
Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, segir þetta hafa veruleg áhrif á uppbyggingu í bænum; breyta þurfi aðalskipulagi auk þess að finna nýjar lóðir, sem getur reynst erfitt vegna þess hve margar lóðir á Bíldudal eru í einkaeigu.
„Þetta hefur haft heilmikil áhrif á uppbyggingarplön á Bíldudal,“ segir Rebekka í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag, en bærinn hafði úthlutað lóðum áður en umsögn frá Veðurstofu barst.