Íbúar Árneshrepps 43 talsins

Frá Norðurfirði í Árneshreppi á Ströndum.
Frá Norðurfirði í Árneshreppi á Ströndum. mbl.is/Jón Guðbjörn Guðjónsson

Alls voru íbúar á Íslandi 364.134 talsins um síðustu áramót sem er 2% fjölgun frá sama tíma árið áður eða um 7.143 einstaklinga. Þetta er eitt af því sem gert er grein fyrir í Hagtíðindum um mannfjöldaþróun ársins 2019 sem Hagstofan hefur gefið út.

Árið 2019 fæddust 4.452 börn en 2.275 manns létust. Fæddir umfram dána voru því 2.177.  Alls fæddust 2.267 drengir og 2.185 stúlkur, en það jafngildir 1.037 drengjum á móti hverjum 1.000 stúlkum. Þetta eru aðeins fleiri börn en árið 2018 þegar 4.228 barn fæddust. Fæðingartala ársins 2019 jafngildir því að hver kona fæði 1,745 börn á ævi sinni. Jafnan er miðað við að þetta hlutfall þurfi að vera rúmlega 2 börn, að minnsta kosti ein stúlka, til þess að þjóðinni fjölgi miðað við óbreytta dánartíðni og jafnvægi í flutningsjöfnuði. Fæðingarárgangurinn 2019 er sá 29. stærsti frá árinu 1951.

Árið 2019 gátu nýfæddir drengir vænst þess að verða 81 árs en stúlkur 84,2 ára. Frá árinu 1987 hafa karlar bætt við sig tæplega sex árum og konur rúmlega fjórum árum í meðalævilengd.

Þá fluttust 7.045 utan en 12.006 til landsins. Aðfluttir umfram brottflutta voru því 4.961 árið 2019, 2.974 karlar og 1.987 konur. Brottfluttir íslenskir ríkisborgarar umfram aðflutta voru 175 árið 2019.

Innflytjendur voru 55.354 hinn 1. janúar 2020 og voru Pólverjar fjölmennastir eða 20.477 sem samsvarar 37% allra innflytjenda. Annarri kynslóð innflytjenda fjölgaði milli ára, voru 5.684 1. janúar 2020 samanborið við 5.263 í fyrra.

Innflytjendur eru 15,2% af mannfjöldanum og hafa þeir aldrei verið fleiri. Fram til ársins 2004 voru konur jafnan í meirihluta þeirra sem fluttust til landsins. Árið 2004 snerist það við og mikill aðflutningur karlmanna olli því að í ársbyrjun 2008 bjó á Íslandi 1.041 karl á móti hverjum 1.000 konum. Á árunum eftir jafnaðist hlutfallið jafnt og þétt og fór lægst í 1.005 1. janúar 2014. Hin síðari ár hefur hlutfallið aftur hækkað jafnt og þétt og náði 1.055 körlum á móti hverjum 1.000 konum í ársbyrjun 2020 og hefur aldrei verið hærra.

Í upphafi árs 2020 voru 63 þéttbýlisstaðir á landinu með 200 íbúa eða fleiri. Auk þeirra voru 32 smærri byggðakjarnar með 50–199 íbúa. Alls bjuggu 342.501 í þéttbýli 1. janúar síðastliðinn og hafði þá fjölgað um 7.239 frá sama tíma ári fyrr. Í dreifbýli og smærri byggðakjörnum bjuggu alls 21.633.

Fólki fækkaði í 14 sveitarfélögum

Fjölmennasta sveitarfélagið var Reykjavík með 131.136 íbúa. Það fámennasta var hins vegar Árneshreppur þar sem bjuggu 43 íbúar. Árið 2019 fækkaði fólki í 14 sveitarfélögum en fjölgun átti sér stað á öllum landsvæðunum átta. Fólki á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði árið 2019, en 1. janúar 2020 bjuggu þar 4.803 fleiri en árið áður. Það jafngildir 2,1% fjölgun íbúa á einu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert