„Margir uggandi um sinn hag“

Umfang riðusmitsins í Skagafirði er enn óljóst
Umfang riðusmitsins í Skagafirði er enn óljóst mbl.is/Árni Sæberg

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar, segir marga bændur uggandi um sinn hag vegna riðuveiki sem greinst hefur í firðinum. Staðfest tilfelli eru á fjórum sauðfjárbúum í Skagafirði, þ.e. Stóru-Ökrum 1, Syðri-Hofdölum, Grænumýri og Hofi í Hjaltadal.

„Þetta er fjárhagslegur skaði og hefur áhrif á afkomu bænda. Menn velta því fyrir sér hvort þetta geti vofað yfir á fleiri bæjum eða ekki. Auðvitað er mörgum brugðið og margir eru uggandi um sinn hag,“ segir Sigfús.

Á næstu dögum mega bændur vænta frekari niðurstaðna um smit á sínum bæjum, en til þess að greina smit verður að aflífa féð, skera á efsta hálslið þess og taka sýni úr mænukylfu og litla heila. Að því loknu eru sýnin send á tilraunastöð á Keldum. Liggi fyrir smit verður að skera niður allan stofninn, til þess að hindra frekari útbreiðslu.

„Menn fá bætur en það er misjafnt hvernig þær bætur hafa verið. Ríkisstjórnin virðist vera tilbúin til þess að styðja við bændur vegna þessa, þeir munu missa tekjur af þessu næstu tvö árin,“ segir Sigfús. Þá þarf að fara í viðamikla hreinsun á bæjunum, sem getur einnig reynst kostnaðarsamt. veronika@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert