Í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins snerti veiran varla skjólstæðinga skaðaminnkandi verkefnis Rauða krossins; Frú Ragnheiðar. Nú er öldin önnur og smit farin að berast inn í jaðarsetta hópa. Verkefnastýra Frú Ragnheiðar hefur áhyggjur af þróuninni og vetrinum fram undan. Skjólstæðingar Frú Ragnheiðar tilheyra jaðarsettum hóp en um er að ræða fólk sem ýmist er heimilislaust, með fjölþættan vímuefnavanda eða hvort tveggja.
Frú Ragnheiður aðstoðar almannavarnir við að koma skilaboðum um smitvarnir, sóttvarnareglur, þörf á sóttkví og einangrun áleiðis til sinna skjólstæðinga. Helsta markmið Frú Ragnheiðar, nú sem endranær, er að halda skjólstæðingum hennar á lífi. Þeir bjuggu við skert aðgengi að heilbrigðiskerfinu áður en faraldurinn skall á en nú er aðgengið jafnvel verra en áður.
„Okkar skjólstæðingar eru kannski ekki að fylgjast með upplýsingafundinum daglega og vita ekki hvaða sóttvarnareglur eru í gildi. Þá gerir þeirra daglega líf það að verkum að þau eiga erfitt með að fylgja þessum reglum eða þá að upplýsingarnar komast ekki til þeirra,“ segir Elísabet Brynjarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnastýra Frú Ragnheiðar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Verkefnið er einnig starfrækt á Suðurnesjunum og Akureyri.
Skjólstæðingarnir hafa margir hverjir lítinn áhuga á samskiptum við lögregluna en almannavarnadeid ríkislögreglustjóra sér um smitrakningu og sér lögreglan um eftirlit með því að sóttvarnareglum sé framfylgt. Frú Ragnheiður stígur því inn í og kemur upplýsingum frá almannavörnum eða smitrakningarteyminu til skjólstæðinga sinna en veitir lögreglu ekki upplýsingar um skjólstæðinga sína.
„Það sem við höfum verið að leggja áherslu á er að við viljum fá tækifæri til þess að eiga þetta samtal við markhópinn okkar án þess að það sé verið að elta þau uppi og taka þau fyrir að brjóta einhverjar reglur,“ segir Elísabet sem bætir því við að markmiðið sé að Frú Ragnheiður geti stutt hópinn á hans forsendum.
„Skjólstæðingarnir okkar eru í mjög viðkvæmri stöðu í samfélaginu og hafa kannski lent á jaðrinum. Fólk sem lendir á jaðrinum treystir illa yfirvaldi, til dæmis lögreglu. Það að smitrakning fari fram af hálfu lögreglunnar gagnvart þessum hópi, sem hefur stundum þurft að gerast, getur verið mjög „triggerandi“ fyrir þessa einstaklinga vegna þess að sum þeirra hafa sögu af samskiptum við lögreglu, hafa forðast lögreglu eða hafa brotið á einhvern hátt af sér og halda að það sé verið að elta þau uppi eða eitthvað svoleiðis. Það getur bara verið mjög erfitt.“
Í fyrstu bylgju fóru starfsfólk og sjálfboðaliðar Frú Ragnheiðar strax að undirbúa sig fyrir smit innan hóps skjólstæðinganna. Um er að ræða áhættuhóp sökum lélegs næringar- og heilsufarsástands.
„Þau gætu orðið mjög alvarlega veik vegna þess að þau eru berskjölduð í þessum heimsfaraldri. Þau eiga mörg ekki öruggan stað til þess að geta verið á, tryggt öryggi sitt og haldið sig frá Covid,“ segir Elísabet.
Lítið var um smit í fyrstu bylgju en Elísabet segir að það hafi verið gott að vera svo vel búin undir það sem svo gerðist í þessari bylgju þegar smitum fór að fjölga. Áður hefur komið fram að um 30 smit hafi komið upp í jaðarhópum að undanförnu. Elísabet segist þó ekki vita til þess að alvarleg veikindi hafi komið upp enn sem komið er og er hún þakklát fyrir það.
„Ég hef áhyggjur af framvindu málsins, að það séu að koma upp smit í þessum hópi en þess vegna erum við líka á milljón í frú Ragnheiði að reyna að hugsa lausnamiðað,“ segir Elísabet.
Á meðal þess sem þau í Frú Ragnheiði hafa nú gert er að útbúa fræðsluefni um smitvarnir og Covid á tungumáli notenda, þ.e. fræðsluefni sem var útbúið með skjólstæðingum Frú Ragnheiðar og er því vel skiljanlegt þeim markhópi. Þá fá skjólstæðingar ráðleggingar varðandi hreinlæti og smitvarnir, mataraðstoð, hlý föt og nálaskiptaaðstoð hjá Frú Ragnheiði.
Til að koma í veg fyrir að lögreglan þurfi að hafa upp á þeim skjólstæðingum Frú Ragnheiðar sem þurfa að fara í sýnatöku vegna berskjöldunar kemur Frú Ragnheiður upplýsingunum áleiðis til skjólstæðinganna og leiðbeinir þeim með framhaldið.
„En við erum ekki í neinu samstarfi við lögregluna. Það sem getur verið svo brothætt fyrir skjólstæðingana okkar er að þau bera svo ríkt traust til Frú Ragnheiðar og ef þau halda að við séum í einhverju samstarfi við lögregluna og að gefa lögreglunni einhvers konar upplýsingar. Það gerum við ekki,“ segir Elísabet.
„Við veitum ekki upplýsingar um að einstaklingur nýti sér þjónustu Frú Ragnheiðar heldur fáum við upplýsingar frá smitrakningu og við tölum svo við skjólstæðingana án þess að við veitum lögreglunni upplýsingar til baka. Við erum að reyna að búa til þetta örugga rými fyrir skjólstæðingana sem er út frá þessari áfallamiðuðu og skaðaminnkandi nálgun sem við störfum eftir í Frú Ragnheiði.“
Elísabet segir að það geti oft verið erfitt að ná í skjólstæðinga Frú Ragnheiðar og koma þeim í sýnatöku enda eru þeir oft án síma, ekki með fasta búsetu og ekki á samfélagsmiðlum. Frú Ragnheiður á þó auðveldara með það en margir aðrir enda mikið traust á milli skjólstæðinga, starfsmanna og sjálfboðaliða verkefnisins.
„Það tekur gríðarlega langan tíma að vinna upp þetta traust en það gerist. Við erum í dag á stað sem orsakast af því að við erum búin að vera að byggja upp þetta traust mjög lengi. Við erum í góðri tengingu við hópinn,“ segir Elísabet.
„Bæði eru einstaklingar að leita til okkar reglulega og treysta okkur og eru kannski að láta sína vini vita áfram. Þannig getum við t.d. miðlað upplýsingum til þeirra auðveldlega. Við erum að reyna að koma því áleiðis að Elísabet og Hafrún, starfskonur Frú Ragnheiðar, séu tilbúnar að veita ráðgjöf varðandi Covid. Þá vonumst við til þess að einstaklingar hringi í okkur ef þeir þurfa aðstoð með Covid.“
Frú Ragnheiður veitir þannig símaráðgjöf en þó er ekki boðið upp á sýnatöku hjá Frú Ragnheiði. Heimilislaust fólk sem þarf a fara í sóttkví eða einangrun getur svo leitað í sóttvarnahús.
Þegar sóttvarnaráðstafanir voru hertar endurskipulagði starfsfólk Frú Ragnheiðar þjónustuna svo hún gæti verið veitt áfram innan ramma laganna.
„Það versta sem gæti komið fyrir þennan hóp væri að þjónustan myndi á einhvern hátt skerðast vegna þess að þetta er áhættuhópur og við erum að gera allt sem við getum til þess að geta haldið úti þjónustu við þennan hóp. Við erum að reyna að hugsa lausnamiðað og finna leiðir til þess að geta komið í veg fyrir þessi smit. Þar komum við inn með samtalið. Við getum reynt að gera okkar besta í að koma í veg fyrir að þetta verði alvarlegri staða en þetta er í dag,“ segir Elísabet.
Nú sjáum við ekki fyrir endann á faraldrinum. Sérð þú fram á erfiðan vetur?
„Ég sé fyrir og er að undirbúa mig fyrir mjög erfiðan og flókinn vetur, við búum okkur alltaf undir veturinn í Frú Ragnheiði út frá aðstæðum skjólstæðinga okkar sem eru þannig að þau eru heimilislaus. Það geta komið upp mál þar sem einstaklingar eiga ekki í nein önnur hús að venda. Núna í ljósi þess að það er heimsfaraldur verða þessi mál enn þá þyngri. Maður hélt að þau gætu ekki orðið þyngri en núna er þetta enn þá flóknara. Við erum bara á fullu að reyna að eiga samtöl við sveitarfélögin og aðila sem geta útvegað húsnæði, að hafa það í huga að við erum núna að fara inn í vetur í heimsfaraldri og það sem er algjört lykilatriði í þessu er samvinna og samtal á milli hagsmunaaðila og þeirra sem geta og eru í aðstöðu til þess að tryggja húsnæði,“ segir Elísabet.
„Okkar helsta markmið í Frú Ragnheiði er að halda fólki á lífi. Aðgengi þessa hóps að heilbrigðiskerfinu var skertur áður en heimsfaraldurinn skall á. Þau mæta alls konar hindrunum á meðan heimsfaraldur er ekki í gangi. Núna þegar það er heimsfaraldur þá skerðist þeirra aðgengi enn frekar.“