Sjö kindur fundust við eftirlit

Sjö kindur fundust við eftirlit lögreglu.
Sjö kindur fundust við eftirlit lögreglu. mbl.is/Golli

Lögreglan á Suðurlandi fór í fimm eftirlitsferðir til að svipast um eftir rjúpnaskyttum um helgina. Engin umferð var á svæðinu. Sjö kindur fundust hins vegar við eftirlit lögreglu. 

„Engin umferð var á svæðinu og enginn var ólöglegur á veiðum. Hins vegar fundust sjö kindur. Það er gott að fá svoleiðis í hús fyrir veturinn,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi. 

Að sögn Odds voru kindurnar norður af Skaftártungu. „Bændur á svæðinu voru látnir vita og þeir gera út leiðangur til að ná þeim,“ segir Oddur. 

Hann segir það sjaldgæft að lögregla finni kindur. Spurður hvort lögreglumenn fari stundum að ná í kindur sem verða í vegi þeirra eftir að smölun lýkur segir hann svo ekki vera. „Bændurnir eru miklu betri en við í að ná í kindurnar,“ segir Oddur. 

Fara þær ekki eftir því sem lögreglan segir. Eru þær ekki löghlýðnar?

„Það er misjafn sauður í mörgu fé,“ segir Oddur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert