Sjúkratryggingar Íslands og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hafa framlengt samkomulag um að heilsugæslan sinni geðheilbrigðisþjónustu við fanga í öllum fangelsum landsins. Samkomulagið gildir út næsta ár.
Samningur um geðheilbrigðisþjónustu fanga var undirritaður í desember í fyrra og fól í sér þau nýmæli að kveðið var á um stofnun sérhæfðs, þverfaglegs geðheilsuteymis fanga, að því er segir í tilkynningu frá Stjórnarráðinu. Hlutverk teymisins er að starfa með og styðja við starfsemi heilsugæslunnar í fangelsum landsins. Þá voru 70 milljónir króna merktar þjónustunni á þessu ári.
Nýju skipulagi geðheilbrigðisþjónustu við fanga var komið á fót sem viðbragði við niðurstöðum úttektar CPT-nefndarinnar, nefndar Evrópuráðsins um varnir gegn pyntingum, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð og refsingu. Nefndin hafði gert ýmsar athugasemdir við þáverandi fyrirkomulag þjónustunnar og lagt áherslu á að geðheilbrigðisþjónusta innan fangelsa ætti að vera sambærileg þeirri heilbrigðisþjónustu sem aðrir landsmenn njóta.