Örlygur Hálfdanarson bókaútgefandi lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 30. október síðastliðinn, níræður að aldri.
Örlygur fæddist 21. desember 1929 í Viðey, sonur Hálfdanar Halldórssonar, verslunarstjóra Kárafélagsins í Viðey, og Jóhönnu Guðlaugar Bjarnadóttur, húsmóður í Viðey og Reykjavík.
Örlygur ólst upp í Viðey, þorpinu sem stóð á Sundbakka við austurenda eyjunnar. Hann gekk þar í Viðeyjarskóla sem síðar komst í eigu Steins Steinarr skálds. Örlygur stundaði einnig nám við Héraðsskólann á Núpi í Dýrafirði og síðar við Samvinnuskólann, lauk þar verslunarprófi 1953 og framhaldsdeildarprófi árið eftir.
Áður en Örlygur sneri sér að bókaútgáfu starfaði hann m.a. hjá Samvinnutryggingum og í nokkur ár á fræðsludeild Sambands íslenskra samvinnufélaga, SÍS. Hann var um tíma ritstjóri Hlyns, blaðs samvinnustarfsmanna og var blaðamaður hjá Samvinnunni.
Ásamt svila sínum, Erni Marinóssyni, stofnaði Örlygur Bókaútgáfuna Örn & Örlyg árið 1966, sem starfrækt var til 1994. Meðal ritverka sem hann kom að var Landið þitt, Reykjavík - sögustaður við Sund, Ensk-íslensk orðabók, Íslensk alfræðiorðabók og fleiri orðabækur, Ferðabók Eggerts og Bjarna, Dýraríki Benedikts Gröndal og Skútuöldin. Síðar stofnaði hann Íslensku bókaútgáfuna sem hélt áfram útgáfu ferðahandbóka og fleiri ritverka; gaf m.a. út Vegahandbókina og Útkallsbækur Óttars Sveinssonar.
Örlygur var meðal stofnenda Viðeyingafélagsins og stóð lengi fyrir leiðsögn um eyjuna. Hann var um skeið forseti Slysavarnafélags Íslands, eftir að hafa setið í stjórn slysavarnadeildarinnar Ingólfs og verið þar formaður. Hann fékk fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín, m.a. fálkaorðuna árið 1991 og árið 2006 var hann heiðraður af Ferðafélagi Íslands með Pálsorðunni.
Eftirlifandi eiginkona Örlygs er Þóra Þorgeirsdóttir húsmóðir. Synir þeirra eru Þorgeir, Örlygur Hálfdan, Matthías, d. 2014, og Arnþór.