Hilmar sinnti hermönnum í Nagorno-Karabakh

Hilmar Kjartansson þegar hann var yfirlæknir bráðadeildar Landspítala.
Hilmar Kjartansson þegar hann var yfirlæknir bráðadeildar Landspítala. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Hilmar Kjartansson, bráðalæknir og einn stofnenda Kerecis, fór nýverið til Armeníu þar sem hann sinnti stríðshrjáðum mönnum sem börðust um Nagorno-Karabakh héraði, svæði sem Armenar og Aserar hafa lengi deilt um. Þar kenndi Hilmar læknum að nota vöru frá Kerecis, svokallað sáraroð. 

Ítarlegt viðtal við Hilmar birtist í Læknablaðinu í dag. Með Hilmari fór Stephen Jeffery, lýtalæknir og undirofursti í breska hernum en þeir meðhöndluðu bæði bruna- og sprengjusár með roðgræðlingum Kerecis, sáraroði unnu úr þorskroði, sem lagt er í sárið og aldrei tekið af. 

„Það er sorglegt og átakanlegt að sjá alla þessa ungu menn í blóma lífsins með þessa alvarlegu áverka,“ segir Hilmar í samtali við Læknablaðið. 

Aldrei séð viðlíka áverka í slíkum mæli

Tilgangur ferðarinnar var að kenna armenskum læknum rétta notkun á sáraroðinu. Þeir Jeffery störfuðu í þrjá daga við aðgerðir á tveimur spítölum og sinntu alvarlegum áverkum armensku hermannanna.

„Þarna sáum við 90 hermenn með sprengjuáverka, opin beinbrot og skaða á mjúkvefjum á öðrum spítalanum og brunadeild annars spítala var svo full af brenndum og særðum hermönnum,“ segir Hilmar. „Ég hef séð viðlíka áverka í Ástralíu, Nýja-Sjálandi og hér á landi í þjálfun minni en ekki í þessum mæli.“

Ástæðan fyrir ferð Hilmars var sú að Armenar heimsóttu Ísland í janúar og fengju kynningu á sáaroðinu. Þegar stríðið skall á kölluðu þeir eftir roðinu. Hilmar sá ekki tilgang með því nema að þeir fengju kennslu í meðferðinni.

„Ég fékk því leyfi hjá konunni minni og Jóni Magnúsi, yfirmanni mínum á bráðamóttökunni. Bráðalæknirinn í mér er víst alltaf tilbúinn að bregðast við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert