Ruglingur kann að skapast ákveði yfirvöld að notast við sama heiti á sektargreiðslum fyrir að greiða ekki fargjöld í almenningssamgöngur og gert er þegar sektað er fyrir að færa ekki ökutæki til skoðunar á réttum tíma. Þetta er mat sýslumannsins á Vestfjörðum.
Svokallað vanrækslugjald hefur verið innheimt um árabil sem viðurlög við brotum á reglugerð um skoðun ökutækja. Nú eru í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi en þar er lagt upp með að breyta fyrirkomulagi á greiðslu á fargjöldum í almenningssamgöngur. Hugmyndin er að auka skilvirkni með því að vagnstjóri þurfi ekki að sinna eftirliti með greiðslu fargjalda en þess í stað framkvæmi eftirlitsmenn slembiúrtök meðal farþega. Hægt verði að leggja gjald á farþega sem ekki hafa greitt fargjald. Gjaldið er í drögunum nefnt „vanrækslugjald“.
Í umsögn Jónasar Guðmundssonar, sýslumanns á Vestfjörðum, en embætti hans sér um álagningu og innheimtu vanrækslugjalds, um lögin er lagt til að annað heiti verði fundið á refsingar fyrir þá sem borga ekki í strætó.