Netverslun Nettó hefur haldist stöðug frá því að þriðja bylgja heimsfaraldurs kórónuveiru hófst hér á landi. Þá virðist sem breytt kauphegðun sé komin til að vera. Þetta segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri hjá Samkaupum í Morgunblaðinu í dag.
„Þetta er orðinn verulegur hluti af markaðnum og þróunin hefur verið mjög hröð. Netverslun er orðin það stór á stuttum tíma að þetta er breyting í kauphegðun til framtíðar,“ segir Gunnar.
Í kjölfar fyrstu bylgju faraldursins margfaldaðist netsala Nettó og á tímabili annaði verslunin vart eftirspurn. Afkastagetan var af þeim sökum aukin.
„Við lærðum alveg helling og breyttum um aðferðafræði, fórum af stað með vöruhús og bættum afkastagetu. Núna erum við að ná að anna allri eftirspurninni innan dagsins. Hins vegar getur afgreiðslutíminn lengst aðeins ef eftirspurnin eykst. Á Akureyrarsvæðinu er til dæmis gríðarlegt álag,“ segir Gunnar og bætir við að salan hafi minnkað í sumar.