Fulltrúar ellefu minni og meðalstórra lífeyrissjóða gagnrýna breytingar á eftirlitsgjaldinu til Fjármálaeftirlits Seðlabankans og hvernig það hefur verið lagt á.
Í umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar um bandormsfrumvarp vegna fjárlaga fyrir næsta ár gera þeir alvarlegar athugasemdir við þetta og segja að gjaldtakan sé skattheima á borð við bankaskatt og verði því að samræmast jafnræðisreglu „og öðrum áskilnaði laga og stjórnarskrár um álagningu og jöfnun opinberra gjalda“.
Breyta þurfi álagningunni þannig að henni verði réttilega skipt milli sjóðanna að teknu tilliti til mismunandi stærðar þeirra.
„Skattlagningunni hefur verið hagað þannig að 60% gjaldsins hefur verið skipt jafnt á sjóðina, en 40 prósentum verið jafnað að tiltölu. Sem einfalt dæmi um mismununina má nefna að ef eftirlitsgjaldið yrði samkvæmt frumvarpinu þyrfti minnsti lífeyrissjóðurinn, Lífeyrissjóður tannlæknafélags Íslands, að greiða 3,2 [milljónir kr.] á næsta ári á meðan Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) myndi greiða 37,5 [milljónir kr.]. Það þýðir að LSR er einungis að borga tólffalt eftirlitsgjald á móti Lífeyrissjóði tannlæknafélags Íslands, þó stærð LSR (hrein eign) sé u.þ.b. eitt hundrað fjörutíu og áttföld miðað við stærð Lífeyrissjóðs tannlæknafélags Íslands,“ segir í umsögninni, sem nánar er um fjallað í Morgunblaðinu í dag.