Lögmanninum Lárusi Sigurði Lárussyni hefur verið vikið úr starfi skiptastjóra þrotabús fasteignafélagsins Þórodds ehf. vegna brots á starfs- og trúnaðarskyldum sínum sem skiptastjóra. Úrskurður þessa efnis var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudaginn að því fram kemur í Fréttablaðinu í dag.
Ástæða brottvikningarinnar er framferði hans í tengslum við sölu á verðmætustu eign búsins, fasteigninni Þóroddsstöðum sem stendur við Skógarhlíð 22 í Reykjavík.
Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að áður en til gjaldþrotaskipta kom hafi eignin verið til sölu hjá fasteignasölunni Mikluborg. Í fyrra hafi 200 milljóna kauptilboð í eignina verið samþykkt en salan ekki gengið í gegn þar sem kaupandinn gat ekki fjármagnað kaupin. Eftir að félagið var tekið til gjaldþrotaskipta og Lárus skipaður skiptastjóri hafi húsið hins vegar verið tekið úr sölu hjá Mikluborg en selt stuttu síðar sama kaupanda í gegnum fasteignasölu eiginmanns og samstarfsmanns Lárusar, Sævars Þórs Jónssonar.
Kaupverðið var hins vegar 70 milljónum lægra en fyrra tilboð, eða 130 milljónir.
Í úrskurði héraðsdóms segir að ekki verði annað séð en það hafi verið hagsmunir Lárusar sjálfs sem ráðið hafi framangreindri ákvörðun, en hún hafi tryggt að þóknun vegna sölu fasteignarinnar rynni til eiginmanns hans. Sölulaun eiginmannsins námu 2,5 prósentum af kaupverðinu sem eru hærri sölulaun en gengur og gerist og hálfu prósenti hærri en miðað er við í verðskrá fasteignasölu eiginmannsins.
Fjallað er um fjölda annarra tilvika um aðfinnsluverða háttsemi skiptastjórans í úrskurðinum, að því er segir í Fréttablaðinu í dag.
Úrskurðurinn hefur ekki enn verið birtur á vef héraðsdóms.