Aðeins eitt flug er á áætlun frá Keflavíkurflugvelli á morgun, flug Icelandair til Kaupmannahafnar í fyrramálið. EasyJet hefur gert hlé á Íslandsflugi fram í miðjan desember ef marka má vef flugfélagsins. Samkvæmt honum verður byrjað að fljúga á Luton 14. desember en síðar á aðra áfangastaði.
WizzAir flýgur enn til Íslands og er með flug til og frá Varsjá tvisvar í viku. Finnair, Air Baltic, Lufthansa og British Airways eru einnig með flug til og frá Íslandi en afar sjaldan.
Á föstudag eru tvær flugferðir á áætlun frá Íslandi, báðar á vegum Icelandair, önnur þeirra er til Kaupmannahafnar og hin til London.
Lengra er ekki hægt að komast í því að skoða flug til og frá landinu þar sem aðeins eru gefnar upplýsingar nokkra daga fram í tímann. Það sem af er mánuðinum hafa 11 áætlunarvélar farið frá Keflavíkurflugvelli ef allt áætlunarflug dagsins í dag er talið með. Á fyrstu sex dögum nóvembermánaðar eru alls 14 ferðir á áætlun frá Keflavíkurflugvelli.
Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að félagið geri ráð fyrir að vera áfram í lágmarksstarfsemi á meðan núverandi takmarkanir á landamærum á Íslandi eru í gildi. Óbreytt fyrirkomulag skimana vegna Covid-19 á landamærum gildir til 1. desember.
„Við erum þó stöðugt að meta stöðuna og getum brugðist hratt við um leið og ástandið batnar og eftirspurn tekur við sér. Við leggjum eftir sem áður mikla áherslu á að veita góða þjónustu á þessum tímum og komum öllum þeim sem vilja eða þurfa að ferðast á sinn áfangastað þótt upprunalegt flug viðkomandi sé fellt niður. Það gerum við með flugi í gegnum aðra áfangastaði okkar eða með samstarfsflugfélögum, án aukakostnaðar fyrir farþegann,“ segir Ásdís.
Í ágúst gerði Icelandair samkomulag við flugfreyjur og flugþjóna um að þau færu í 75% af fyrra starfshlutfalli út apríl 2021. Ásdís segir að Icelandair sé þegar búið að aðlaga fjölda flugmanna að lágmarksstarfsemi í kjölfar hertra reglna á landamærum á Íslandi en vonist til að geta dregið uppsagnir til baka um leið og ástandið batnar og eftirspurn eftir flugi tekur við sér á ný.