Nær þriðji hver umsækjandi fékk alþjóðlega vernd

Hælisleitendur mótmæltu við húsnæði Útlendingastofnunar í Hafnarfirði og Kópavogi í …
Hælisleitendur mótmæltu við húsnæði Útlendingastofnunar í Hafnarfirði og Kópavogi í mars 2019 og kröfðust þess að brottvísunum yrði hætt og að þeir fengju atvinnuleyfi og fullan aðgang að heilbrigðiskerfinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland kemur næst Svíþjóð þegar um er að ræða fjölda umsókna um alþjóðlega vernd hér á landi 2015-2019 miðað við höfðatölu þjóðanna. Umsóknirnar voru 257 í Svíþjóð og 237 á Íslandi á hverja 100.000 íbúa en 82 í Finnlandi, 47 í Danmörku og 43 í Noregi, samkvæmt tölum frá evrópsku hagstofunni Eurostat.

Sömuleiðis erum við næstir Svíum þegar kemur að jákvæðri afgreiðslu á umsóknum, miðað við höfðatölu. Þær voru 115 í Svíþjóð, 106 hér, 80 í Finnlandi, 38 í Noregi og 31 í Danmörku á hverja 100.000 íbúa. Umsóknir um alþjóðlega vernd hér frá 2016 til loka september 2020 voru alls 4.410 talsins, samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun. Þá fengu 1.352 einstaklingar vernd, viðbótarvernd og dvalarleyfi af mannúðarástæðum eða 31% af heildarfjölda umsækjenda.

Hlutfallið hefur verið breytilegt á milli ára og farið hækkandi enda miklar breytingar orðið á því hvaðan umsækjendur koma, að sögn Útlendingastofnunar.

Þessu til viðbótar var 229 einstaklingum, svonefndum kvótaflóttamönnum, veitt vernd í boði stjórnvalda á þessu sama tímabili, að því er fram kemur í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert