Tvö smit hjá starfsmönnum í gærkvöldi

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tvö smit komu upp hjá starfsmönnum Landspítala í gærkvöldi sem talið er að séu afleidd af hópsmitinu á Landakoti. Niðurstöður frá Landspítalanum vegna rannsóknar og rakningar á smitinu á Landakoti munu væntanlega liggja fyrir í byrjun næstu viku. 

Þetta kom fram í máli Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans, á opnum fjarfundi velferðarnefndar Alþingis um neyðarstig á Landspítalanum. „Við erum ekki enn komin fyrir vind í þessu og við erum enn í skotgröfunum ef svo má segja en það gengur ágætlega,“ sagði Páll um hópsmitið á Landakoti, en áður en smitið kom upp í gær höfðu liðið þrír dagar frá síðasta smiti á Landspítalanum tengdu hópsmitinu.

Þegar smitið kom upp á Landakoti sagðist Páll hafa tilkynnt það strax til landlæknis 24. október. Um leið og niðurstöður rannsóknar liggja fyrir mun hann tilkynna landlækni það og almenningi í kjölfarið.

Már Kristjánsson yfirlæknir.
Már Kristjánsson yfirlæknir. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Innbyggð áhætta í starfseminni“

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, tók næstur til máls og benti í byrjun á að Landakot væri endurhæfingarstaður fyrir hruma einstaklinga. Það fæli í sér að frá farsóttarsjónarmiði væri ákveðin innbyggð áhætta í starfseminni. Hann sagði fólk vera hvatt til sameiginlegrar vistar, til dæmis við borðhald, sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun.

Fimm deildir eru á Landakoti og eru umönnunaraðilar fastir á deildum en aðrar stéttir flakka á milli, þar á meðal sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar, félagsfræðingar, sálfræðingar og læknar, sagði Már og bætti við að þrisvar á dag kæmu allir starfsmennirnir inn á spítalann. Hann sagði húsnæðið á Landakoti vera sérstaka áskorun á farsóttartímum. Um væri að ræða fjölbýli, salerni væru alltof fá og áskorun varðandi loftgæði og loftflæði. „Þetta er gríðarlega erfitt mál hvað húsnæði varðar,“ sagði hann.

Einnig nefndi hann að smit hefðu aukist í samfélaginu og hópsmit komið upp annars staðar óháð Landakoti. „Miðað við alla þessa atburði sem felast í komum starfsmanna er það mikil áskorun að standa vörð um það að smit berist ekki til okkar viðkvæmu skjólstæðinga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert