Danir standa betur að málum

Þórir Kjartansson.
Þórir Kjartansson.

Stjórnarformaður Öldungs hf., rekstrarfélags hjúkrunarheimilisins Sóltúns, telur vert að líta til Danmerkur um skipulag við uppbyggingu og rekstur hjúkrunarheimila. Þar sé þjónustan skipulögð þannig að almennt myndist ekki biðlistar, öfugt við það sem hér er. Telur Þórir Kjartansson að miðað við ganginn í uppbyggingu hjúkrunarheimila og aukna þörf fyrir hjúkrunarrými stefni í mikla biðlista á næstu árum og áratugum.

Þórir segir að málaflokkurinn í Danmörku sé á ábyrgð sveitarfélaganna en þó þannig að ríkið tryggi þeim næga fjármuni til að standa undir uppbyggingu og rekstri. „Það er á ábyrgð dönsku sveitarfélaganna að byggja upp þá þjónustu sem dugir fyrir alla íbúa sem þurfa á þjónustunni að halda. Þau eru sektuð ef þau eiga ekki nægilegt rými og sektirnar eru það háar að það borgar sig fyrir stjórnendur sveitarfélaganna að fylgjast með þörfinni og byggja jafnóðum upp. Sveitarfélögin byggja ýmist upp sjálf eða fela einkaaðilum að gera það. Stefna ríkisins er að vera með fyrirframskilgreindan hlut hjúkrunarheimila einkarekinn en meirihlutinn er samt rekinn af sveitarfélögum. Það skapar meiri sveigjanleika og valmöguleika fyrir fólkið í landinu,“ segir Þórir.

Hann bendir á að mikill þjóðhagslegur ávinningur skapist við að útrýma biðlistum, eins og gert er í Danmörku, og það sé auk þess réttlætismál og spari fjármuni.

Nánar má lesa um þetta mál hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert