Bæði Framsókn og Vinsti hreyfingin – grænt framboð hafa haldið rafrænt kjördæmisþing í Norðausturkjörkæmi nýlega, Framsókn á þriðjudaginn en Vinstri græn á laugardaginn. Ljóst er að í báðum flokkum stefnir í toppslag þegar kemur að sætum á lista fyrir næstu alþingiskosningar.
Á kjördæmisþingi Framsóknar kvaðst Þórunn Egilsdóttir, sitjandi oddviti, sækjast eftir umboði til þess að leiða lista en Ingibjörg Isaksen bæjarfulltrúi á Akureyri tilkynnti á sama fundi að hún byði sig fram í fyrsta sæti á B-lista.
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar, sækist áfram eftir sæti ofarlega sem og Þórarinn Ingi varaþingmaður. Þá tilkynnti Helgi Héðinsson, oddviti í Skútustaðarhreppi, að hann byði fram krafta sína í hóp þeirra efstu.
Á kjördæmisþingi Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi tilkynnti Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, þingmaður og oddviti í kjördæminu til margra ára og stofnandi flokksins, að hann myndi ekki bjóða sig aftur fram. Við þá tilkynningu opnaðist sæti sem líklegt er að keppst verði um.
Fyrir er Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður í kjördæminu og í öðru sæti á eftir Steingrími. Hún tilkynnti á kjördæmisþingi að hún hygðist bjóða sig fram í oddvitasætið. Þá hefur Óli Halldórsson, forstöðumaður Þekkingarnets Þingeyinga, tilkynnt á Facebook-síðu sinni að hann sækist eftir fyrsta sæti listans, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.