Skimað fyrir kórónuveiru á íslenskum minkabúum

Minkur í búri.
Minkur í búri. mbl.is/Björn Jóhann

Í ljósi smita af stökkbreyttu afbrigði kórónaveiru úr minkum í fólk í Danmörku ætlar Matvælastofnun að hefja skimun fyrir kórónaveiru á minkabúum landsins. Ekki er grunur um að kórónaveirusmit hafi komið upp á minkabúum hérlendis.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Þegar fregnir bárust af kórónaveirusmiti úr fólki í minka í sumar sendi Matvælastofnun tilmæli til íslenskra minkabænda um hertar sóttvarnir á búunum og að einstaklingar með sjúkdómseinkenni haldi sig fjarri þeim. Tilkynna skal grun um veikindi í minkum til stofnunarinnar. Reglulega hefur verið minnt á þessi tilmæli en engar tilkynningar hafa borist, að því er segir í tilkynningunni.

Ef smit greinist á búunum verða frekari aðgerðir skoðaðar í samráði við heilbrigðisyfirvöld.

Danir greindu í gær frá niðurskurði á öllum minkum á minkabúum í landinu vegna kórónuveirusmita sem bárust úr minkum í fólk. Um stökkbreytt afbrigði veirunnar er að ræða sem talið er að hafi borist upprunalega úr fólki í minka. Hætta er á að þau bóluefni sem eru í þróun gegn kórónaveirunni virki ekki á stökkbreytt afbrigði veirunnar.

Níu minkabú á Íslandi

Litlar líkur eru á smiti yfir í villta minkastofninn þar sem umgengni við menn er í lágmarki. Á Íslandi eru starfrækt níu minkabú á Norðlandi vestra og Suðurlandi með alls 15.000 eldislæðum, segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert