Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis leggur til umfangsmiklar breytingar á stjórnarfrumvarpinu um tekjufallsstyrki, svo mun fleiri geti átt rétt á þessum stuðningi en gert var ráð fyrir í frumvarpinu og jafnframt að skilyrði fyrir styrkjunum verði rýmkuð.
Ef breytingatillögurnar verða samþykktar gætu tekjufallsstyrkirnir kostað ríkissjóð um eða yfir 23 milljarða kr. skv. upplýsingum Óla Björns Kárasonar, formanns nefndarinnar. Í upphaflegu frumvarpi var gert ráð fyrir að kostnaðurinn gæti orðið allt að 14,4 milljarðar.
,,Tekjufallsstyrkirnir voru í upphafi hugsaðir fyrst og fremst fyrir einyrkja, listamenn og örfyrirtæki með þrjá starfsmenn eða færri, það er búið að víkka þá út og í raun nær frumvarpið utan um öll fyrirtæki eða rekstraraðila óháð stærð,“ segir Óli Björn.
Tekjufallsstyrkirnir eru í frumvarpinu ætlaðir einyrkjum og litlum fyrirtækjum þar sem launamenn eru þrír eða færri og hafa orðið fyrir minnst 50% tekjufalli á tímabilinu 1. apríl til 30. september sl. samanborið við sama tímabil í fyrra. Nefndin leggur hins vegar til að allir rekstraraðilar geti sótt um tekjufallsstyrk óháð starfsmannafjölda, enda uppfylli þeir önnur skilyrði fyrir styrkveitingu, m.a. um lágmarkstekjufall. Sett er ákveðið þak á styrkina í tillögum nefndarinnar og þeir eru jafnframt þrepaskiptir. Tímabilið sem miðað verði við nái til 31. október og krafan um að þeir einir geti fengið styrk sem hafa orðið fyrir meira en 50% tekjufalli verði rýmkuð þannig að rekstraraðili þurfi einungis að sýna fram á 40% tekjufall til að geta átt rétt á úrræðinu. Ef tekjufallið er á bilinu 40-70% getur tekjufallsstyrkur í hæsta lagi numið 400 þúsund kr. á hvert mánaðarlegt stöðugildi á tímabilinu og í hæsta lagi tveimur milljónum kr. á mánuði, sem nemur fimm stöðugildum. Ef tekjufallið er meira yrði hámark styrksins 500 þúsund á hvert mánaðarlegt stöðugildi.
„Samkvæmt þessu getur rekstraraðili með 40-70% tekjufall í hæsta lagi átt rétt á 14 millj. kr. tekjufallsstyrk og rekstraraðili með 70% tekjufall eða meira í hæsta lagi átt rétt á 17,5 millj. kr. tekjufallsstyrk,“ segir í nefndarálitinu, sem um er fjallað í Morgunblaðinu í dag.